Viðskipti innlent

Sigur­jón og Birna María til Nóa Siríus

Atli Ísleifsson skrifar
Birna María Másdóttir og Sigurjón Jóhannsson.
Birna María Másdóttir og Sigurjón Jóhannsson. Aðsend

Sigurjón Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá Nóa Síríus hf. og þá hefur Birna María Másdóttir verið ráðin markaðsstjóri fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að Sigurjón hafi upphaflega gengið til liðs við fyrirtækið árið 2022 þegar hann hafi tekið við stöðu sérfræðings á sviði viðskiptagreininga. 

„Sigurjón er með meistaragráðu í endurskoðun og reikningsskilum og einnig fjármálum frá Háskóla Íslands auk þess að hafa sótt skiptinám í Bandaríkjunum og Mexíkó. Sigurjón hefur aflað sér víðtækrar reynslu með störfum sínum á vettvangi atvinnulífsins, svo sem hjá Festi hf., Iceland Seafood, í sjö ár á endurskoðunarsviði KPMG og nú undanfarin þrjú ár hjá Nóa Siríus.

Þá hefur Birna María Másdóttir verið ráðin í starf markaðsstjóra Nóa Siríus sem heyrir undir framkvæmdastjóra markaðsmála. Birna María býr yfir yfirgripsmikilli reynslu frá auglýsingastofunni Brandenburg, þar sem hún starfaði sem viðskiptastjóri og starfaði náið með fyrirtækjum á borð við Nova, Krónuna og PLAY. Þá hefur hún látið mikið til sín taka á sviði þáttagerðar í sjónvarpi, þar sem hún þróaði m.a. hugmyndina og skrifaði handrit að þáttunum GYM sem sýndir voru á Stöð 2. Einnig sá hún um dagskrárgerð og umsjón með þáttunum Bibba flýgur og Áttavillt sem báðir hlutu tilnefningu til Eddunnar árið 2021,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×