Ensku úrvalsdeildarliðin Aston Villa og Arsenal tryggðu sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og verða einu ensku liðin þar.
Arsenal var í raun búið að vinna einvígið sitt eftir 7-1 útisigur í fyrri leiknum á móti PSV Eindhoven í Hollandi. Arsenal komst tvisvar yfir í leiknum á Emirates leikvanginum í kvöld en varð að sætta sig við 2-2 jafntefli.
Aston Villa vann 3-0 sigur á Club Brugge á Villa Park og þar með 6-1 samanlagt. Það var ekki nóg með að Villa var 3-1 yfir eftir fyrri leikinn út í Belgíu þá misstu Belgarnir Kyriani Sabbe af velli með rautt spjald strax á sautjándu mínútu.
Tiu leikmenn Club Brugge héldu út fram í hálfleik en fengu svo þrjú mörk á sig í seinni hálfleiknum.
Arsenal skoraði aftur á móti bæði mörkin sín í fyrri hálfleiknum.
Raheem Sterling lagði upp mark fyrir bæði Oleksandr Zinchenko og Declan Rice í fyrir hlé. Zinchenko kom Arsenal í 1-0 með góðu langskoti á 6. mínútu og Rice kom Arsenal í 2-1 með skalla á 37. mínútu.
Ivan Perisic jafnaði metin í 1-1 á 18. mínútu og Couhaib Driouech jafnaði metin í 2-2 á 70. mínútu. Það urðu síðan lokatölur leiksins.
Marco Asensio skoraði tvö mörk fyrir Aston Villa og Ian Maatsen eitt.
Asensio kom Villa i 1-0 á 50. mínútu eftir sendingu Leon Bailey og skoraði einnig þriðja markið á 61. mínútu eftir sendingu Marcus Rashford. Ian Maatsen skoraði annað markið á 57. mínútu eftir stoðsendingu Morgan Rogers.