Handbolti

Al­freð fyrsti ís­lenski þjálfarinn til að tapa stigi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason er alltaf líflegur og litríkur á hliðarlínunni í leikjum þýska landsliðsins.
Alfreð Gíslason er alltaf líflegur og litríkur á hliðarlínunni í leikjum þýska landsliðsins. AFP/Bo Amstrup

Alfreð Gíslason stýrði þýska landsliðinu í kvöld í jafntefli á móti Austurríki á útivelli í undankeppni Evrópumótsins í handbolta.

Leikurinn endaði 26-26 eftir að þýska landsliðið hafði verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13-11.

Þjóðverjar höfðu unnið tvo fyrstu leiki sína í riðlinum en eru nú með eins stigs forskot á Austurríki á toppi riðilsins. Austurríska liðið er líka taplaust en hefur gert tvö jafntefli í þremur leikjum.

Þjóðverjar voru með forystuna nær allan leikinn og 26-25 yfir þegar tvær mínútur voru eftir. Austurríkismenn jöfnuðu metin og þýska liðinu mistókst að nýta síðustu sókn sína. Marko Grgic tók síðustu tvö skot þýska liðsins og klikkaði á báðum.

Sebastian Frimmel skoraði jöfnunarmarkið úr vítakasti sextán sekúndum fyrir leikslok.

Jafnteflið hjá Alfreð þýðir líka að íslensku þjálfararnir í undankeppni EM í handbolta 2026, eru ekki lengur með fullt hús.

Fram að leiknum í kvöld höfðu íslensku þjálfararnir unnið alla átta leiki sína.

Snorri Steinn Guðjónsson er með íslenska landsliðið á toppnum í riðli þrjú með þrjá sigra í þremur leikjum og 20 mörk í plús. Ísland er með fjögurra stiga forystu því öll hin liðin þrjú hafa tvö stig.

Dagur Sigurðsson er með króatíska landsliðið á toppnum í riðli fimm með þrjá sigra í þremur leikjum og 23 mörk í plús. Króatía er með tveggja stiga forystu á Tékkland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×