Við jöfnum leikinn með jarðhita.
Það er stefna ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur.
Á árunum 2025 til 2028 ætlum við að verja milljarði króna í styrki til leitar og nýtingar jarðhita á svæðum þar sem nú er notast við raforku og olíu til húshitunar.
Milljarður er há fjárhæð og það er hápólitísk ákvörðun að ráðstafa milljarði í jarðhitaleit frekar en önnur verkefni.
Hvers vegna gerum við það? Vegna þess að þannig sláum við margar flugur í einum höggi.
Ný ríkisstjórn leggur áherslu á byggðajöfnuð, að jafna aðstöðumun fólks og fyrirtækja og treysta stoðir hinna dreifðu byggða.
Við ætlum að auka framboð af orku, ryðja burt hindrunum og liðka fyrir framkvæmdum.
Við leggjum áherslu á orkuöryggi og orkunýtni, og við erum staðráðin í að ná árangri í orkuskiptum og loftslagsmálum.
Átakið Jarðhiti jafnar leikinn þjónar öllum þessum markmiðum. Með því stígum við stærri skref í stuðningi ríkisins við leit og nýtingu jarðhita en stigin hafa verið á þessari öld.
Reynslan af síðasta jarðhitaátaki sýnir að til mikils er að vinna. Ég er sannfærður um að þetta sé ábatasöm fjárfesting og skynsamleg nýting á almannafé.
Með árangri í leit og nýtingu jarðhita munum við lækka húshitunarkostnað heimila en jafnframt létta kostnaði af fyrirtækjum, sveitarfélögum og grunnþjónustu á köldum og krefjandi svæðum.
Þetta er grundvallaratriði fyrir verðmætasköpun og byggðaþróun í landinu og jafnaðarmennska eins og hún gerist best.
Höfundur er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.