Skoðun

Úlfurinn gerður að fjárhirði

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Sádi-Arabía gegnir nú formennsku í kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna, en 69. lota nefndarinnar hófst á dögunum. Skipunin hefur vakið upp háværa umræðu og gagnrýni um allan heim, m.a. frá kvenréttindafrömuðum. Ástæðan er augljós, enda skipa stjórnvöld konungsríkisins sér í hóp með verstu mannréttindabrjótum heims þegar kemur að réttindum kvenna. Forsvarsmaður Amnesty International samtakanna orðaði það svo að slakur árangur Sádi-Arabíu í að vernda og efla réttindi kvenna afhjúpaði gríðarlega gjá á milli veruleika kvenna og stúlkna í Sádi-Arabíu, annars vegar, og hins vegar væntinga framkvæmdastjórnar kvennanefndarinnar.

Óhlýðnar konur í Sádi-Arabíu

En hver er veruleiki kvenna og stúlkna í Sádi-Arabíu? Samkvæmt þarlendum lögum fara karlmenn formlega með forsjá (e. male guardianship) yfir konum og löggjöfin leggur blessun yfir heimilis- og kynferðisofbeldi í hjónabandi. Forsjáin er ýmist í höndum feðra, bræðra eða eiginmanna. Réttur kvenna til hjónaskilnaðar er mjög takmarkaður og forsjá barna er sjálfkrafa í höndum feðra. Ferðafrelsi kvenna í Sádi-Arabíu er mjög lítið, enda þurfa þær leyfi karlmanns til athafna. Algengt er að karlmenn leiti til lögreglu vegna „óhlýðni“ kvenna, m.a. í formi fjarveru frá heimili. Eru konur þá handteknar og færðar með valdi til síns heima. Baráttukonur fyrir kvenréttindum í Sádi-Arabíu sæta ofsóknum; handtökum og varðhaldi, pyntingum og ferðabanni af hálfu yfirvalda. Þær hljóta þunga fangelsisdóma og sem dæmi má nefna 11 ára dóm konu fyrir að styðja kvenréttindi á samfélagsmiðli og birta mynd af sér í klæðnaði sem yfirvöld flokkuðu sem ósæmilegan. Amnesty á Íslandi hefur vakið athygli á ofsóknum yfirvalda í Sádi-Arabíu sem leiða jafnvel til dauða á meðan þau verji miklum fjármunum í ímyndarherferð til að blekkja umheiminn. Þátttaka konungsríkisins í mannréttindastarfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er vafalaust mikilvægur hluti af þeirri herferð.

Táknmynd kúgunar kvenna stýrir kvennanefnd

Ísland hafði ekki beina aðkomu að skipun Sádi-Arabíu til formennskunnar. En við höfum verið mjög gagnrýnin á konungsríkið í mannréttindamálum m.a. á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa réttindi kvenna verið ofarlega á blaði, t.a.m. í gagnrýni sem utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins leiddi.

Að táknmynd kúgunar kvenna stýri kvennanefndinni bætist á langan lista yfir gagnrýni á Sameinuðu þjóðirnar. Stofnunin hefur sannarlega mátt muna sinn fífil fegri. Það sér það hver maður að formennska Sádi-Arabíu í kvennanefndinni, nefnd sem hverfist um réttindi kvenna, er reginhneyksli. - Ég sakna þess að heyra frá íslenskum stjórnvöldum sem eru í betri stöðu en oft áður til að tjá sig um þessi mál, m.a. vegna setu sinnar í mannréttindaráðinu.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×