Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. Það var árið 2020 sem þýskt fyrirtæki keypti jörðina Hjörleifshöfða en eigendur þess eru tékkneskir. Stór hluti Mýrdalssands tilheyrir jörðinni.

Upphaflegar hugmyndir um efnisflutninga á trukkum á þjóðvegum til Þorlákshafnar mættu andstöðu sveitarfélaga og Vegagerðarinar og hefur fyrirtækið EP Power Minerals núna kynnt áform um gerð hafnar við Alviðruhamra. Þaðan yrði vikrinum skipað út til sementsframleiðslu í Evrópu.

Samnefndur viti er á Alviðruhömrum en þeir eru á suðaustanverðum Mýrdalssandi, neðan byggðarinnar í Álftaveri. Hamrarnir ná langleiðina að ósum Kúðafljóts og er þetta einn af fáum stöðum á suðurströnd Íslands þar sem berg og fast land nær alla leið að sjó.

Samkvæmt matsáætlun fyrir umhverfismat gera áform fyrirtækisins ráð fyrir bryggju, viðlegukanti og brimvarnargarði ásamt geymslusvæði við ströndina. Vikurinn yrði fluttur frá námu suðaustan við Hafursey annaðhvort með trukkum á sérstökum námavegi, sem lægi undir hringveginn, eða á færiböndum þessa tíu kílómetra leið.

Fulltrúar fyrirtækisins héldu kynningarfund með íbúum og landeigendum Álftavers í síðustu viku. Meðal þeirra sem sátu fundinn var Jóhannes Gissurarson, oddviti Skaftárhrepps, en hann er bóndi á Herjólfssstöðum í Álftaveri.
Jóhannes kveðst ekki skynja annað en jákvæð viðbrögð meðal nágranna sinna og segir að það hljóti að teljast jákvætt að fá hundrað til tvöhundruð ný störf inn á svæðið.

Sjálfur kveðst Jóhannes ekki sjá neitt annað en jákvætt við þessi áform. Þarna geti ræst gömul hugsjón Skaftfellinga um útflutning og verðmætasköpun úr framburði Kötluhlaupa, vikri Mýrdalssands.
Þá kveðst hann ekki sjá að þetta skaði aðra starfsemi á svæðinu, eins og landbúnað eða ferðaþjónustu, en bryggjan yrðu um átta kílómetra frá næstu sveitabæjum í Álftaveri.

Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri EP Power Minerals Iceland, segir þetta verkefni upp á tugi milljarða króna. Hann áætlar að framkvæmdir gætu hafist í fyrsta lagi eftir tvö ár og að það þyrfti þrjú sumur til að reisa mannvirkin.
Hér í frétt Stöðvar 2 má átta sig betur á staðháttum: