Erlent

Fyrir­skipar lokun mennta­mála­ráðu­neytisins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Forsetinn undirritaði tilskipunina umkringdur skólabörnum.
Forsetinn undirritaði tilskipunina umkringdur skólabörnum. AP/Jose Luis Magana

Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði forsetatilskipun í gær sem miðar að því að leggja niður menntamálaráðuneyti landsins. Forsetinn sagði tímabært að færa ríkjunum aftur nemendurna.

Fréttaskýrendur vestanhafs segja um að ræða pólitískt sjónarspil, enda hefur forsetinn ekki vald til að leggja ráðuneytið niður heldur er það á forræði þingsins. Þá voru skilaboð Trump nokkuð misvísandi en á sama tíma og hann talaði um að leggja ráðuneyti niður sagði hann að það myndi áfram sinna ákveðnum verkefnum.

Trump hefur þegar grafið undan ráðuneytinu með því að segja upp meira en helmingi starfsfólksins og gera út um styrki að andvirði 600 milljón dala. Uppsagnirnar komu harðast niður á þeirri deild sem hefur haft umsjón með því að tryggja öllum nemendum aðgengi að menntun, óháð aðstæðum.

Forsetinn sagði í gær að ráðuneytið myndi áfram sinna ákveðnum verkefnum, til að mynda að úthluta fjárhagsaðstoð til nemenda, lánum og styrkjum, og fjármagna úrræði fyrir nemendur með sérþarfir og styðja við skólaumdæmi þar sem margir nemenda byggju við fátækt.

Einhverjum verkefnanna verður úthlutað til annarra ráðuneyta eða stofnana.

Margir íhaldsmenn hafa talað fyrir því að leggja ráðuneytið niður og færa valdið yfir skólamálum aftur til ríkjanna og í hendur foreldra. Skoðanakannanir sýna hins vegar að tveir þriðjuhlutar þjóðarinnar eru á móti.

Nokkur samtök hafa þegar lýst því yfir að þau hyggist höfða mál vegna ákvörðunarinnar, meðal annars American Federation of Teachers.

New York Times fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×