Umræðuna má sjá í spilaranum hér að neðan.
Þjóðadeildin hefur, auk þess að vera sérkeppni, getað virkað sem varaleið inn á stórmót fyrir lið sem komast ekki þangað gegnum undankeppni. Eins og fjallað var um hér á Vísi í gær er í þessu sambandi erfitt að fullyrða hvort betra sé að vera í B- eða C-deild og ræddu sérfræðingarnir um þetta eftir 2-1 tap Íslands gegn Kósovó í gær.
„Hugsanlega gæti verið auðveldara að komast svona í gegn en ég held að stóri punkturinn sé leikirnir sem við erum að fá. Í C-deild erum við að keppa á móti Kýpur og Möltu og svona. Þetta eru leikir sem við þurfum ekki,“ sagði Lárus og hélt áfram.
„Við erum á réttum stað í B-deildinni. Við eigum góðan séns á að vinna riðlana, góðan séns á að verða í 2. sæti og fara þannig upp. Þetta er okkar rétti staður. Ef við förum í C-deildina þá erum við að fá leiki sem eru ekki góðir fyrir okkur.“
„Búið að aumingjavæða keppnina“
Kári tók svo til máls og vill einfaldlega sjá Ísland vinna sig inn á stórmót á réttum forsendum, í gegnum undankeppni:
„Ef þú ert að fara í gegnum einhverja D-deild inn á EM þá áttu EKKERT erindi inn á EM. Það er búið að aumingjavæða keppnina með því að reyna að hleypa fleirum inn. Eigum við ekki að fara inn á EM og virkilega verðskulda það? Vinna einhvern riðil og verðskulda að fara á EM. Þannig förum við á EM,“ sagði Kári.
„Það er ekkert jafnsætt að fara á EM svona. Þá verður þetta pínu eins og handboltinn þar sem er bara stórmót á hverju einasta ári, sem er jú gaman því þetta er í leiðinlegasta mánuði ársins og því horfa allir á þetta, en það á að vera afrek [að komast á stórmót],“ sagði Kári og bætti við:
„Það á auðvitað að fara í alla leiki til að vinna þá.“
Umræðuna má sjá í spilaranum að ofan.