Ofbeldi á meðal barna í Breiðholtsskóla hefur verið áberandi undanfarið og hefur borið á því að börn treysti sér ekki út eða í skólann. Sumir foreldrar hafa jafnvel tekið börn sín úr skólanum og í skóla í öðrum hverfum. Hópur drengja í sjöunda bekk og fleiri haldi hverfinu í heljargreipum.
Hópur foreldra ákvað að taka saman höndum á dögunum og gengu sitt fyrsta foreldrarölt sem hópur um hverfið þegar að skólaball fór fram í fyrradag. Ásta Birna Björnsdóttir, formaður foreldrafélagsins í Breiðholtsskóla, vonast að um sé að ræða upphafið að einhverju farsælu fyrir bæði börn og foreldra.
„Þessi hópur verður til núna, það er foreldri sem á þetta frumkvæði og það myndast bara einhver kraftur og fólk var reiðubúið að leggja sitt að mörkum. Þetta er eitthvað sem er nauðsynlegt að virkja núna og mikilvægt að foreldrar leggi sitt af mörkum. Foreldrar eru lykillinn.“
Um tuttugu manns tóku þátt í röltinu á miðvikudaginn og hafa fleiri sýnt framtakinu áhuga síðan þá.
„Við erum ekkert að stíga inn í eitthvað sem við sjáum en erum til staðar ef að þörf er.
Og hvernig er framhaldið hjá ykkur núna?
„Framhaldið er að setja niður og skipuleggja foreldrarölt þar sem foreldrar geta meldað sig og mætt. Byggja það upp og halda áfram.“
Mikilvægt sé að foreldrar styrki böndin sín á milli og sýni samúð og ábyrgð í verki.
„Það er náttúrulega margt búið að ganga á. Það að foreldrar séu tilbúnir að stíga fram og leggja sitt að mörkum er það sem við þurfum núna.“