Tuchel stýrði enska landsliðinu í fyrsta sinn þegar það mætti Albaníu á Wembley í undankeppni HM 2026 í gær. Englendingar unnu 2-0 sigur með mörkum frá Myles Lewis-Skelly og Harry Kane. Sá fyrrnefndi skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í fyrsta landsleiknum en Kane bætti enn markamet sitt fyrir enska landsliðið með sínu sjötugasta marki fyrir það.
Þrátt fyrir sigurinn var Tuchel ekki alsáttur með frammistöðu enska liðsins í gær og tiltók sérstaklega kantmennina Foden og Rashford í því samhengi.
„Báðir kantmennirnir sem byrjuðu höfðu ekki jafn mikil áhrif og þeir geta haft og hafa með sínum félagsliðum,“ sagði Tuchel.
„Ég veit ekki alveg af hverju við áttum í vandræðum með að koma boltanum hraðar til þeirra, í opnari stöðum. Ég þarf að skoða leikinn. Okkur vantaði hlaup án bolta svo það var aðeins of mikið um sendingar og ekki nógu mikið um einleik. Við vorum ekki nógu ágengir upp við markið. Þeir hafa verið góðir með sínum félagsliðum undanfarnar vikur. Við höldum áfram að hvetja þá og búa til ramma fyrir þá svo þeir geti sýnt hvað í þeim býr.“
Rashford, sem er á láni hjá Aston Villa frá Manchester United, var í fyrsta sinn í byrjunarliði Englands í heilt ár í gær. Hann lék þá sinn 61. landsleik.
Foden hefur verið fastamaður í enska liðinu undanfarin misseri en ekki látið mikið að sér kveða. Hann hefur nú leikið sautján landsleiki í röð án þess að koma að marki.
Næsti leikur Englands er gegn Lettlandi á mánudaginn.