Erlent

Bættu blaða­manni ó­vart í Signal-hóp um á­rásir á Húta

Samúel Karl Ólason skrifar
Efri röð: JD Vance varaforseti Bandaríkjanna og Pete Hegseth varnarmálaráðherra. Neðri röð: John Ratcliffe yfirmaður CIA og Mike Waltz þjóðaröryggisráðgjafi. 
Efri röð: JD Vance varaforseti Bandaríkjanna og Pete Hegseth varnarmálaráðherra. Neðri röð: John Ratcliffe yfirmaður CIA og Mike Waltz þjóðaröryggisráðgjafi.  EPA

Svo virðist sem Mike Waltz, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, hafi fyrir mistök bætt blaðamanni inn í spjallhóp þar sem hann, JD Vance varaforseti, Pete Hegseth varnarmálaráðherra og fleiri töluðu um hvort Bandaríkin ættu að hefja umfangsmiklar árásir á Húta í Jemen og hvernig.

Í þessum hópi, í samskiptaforritinu Signal, töluðu þeir meðal annars einnig um sameiginlega „fyrirlitningu“ þeirra í garð Evrópu. Þá deildu þeir leynilegum upplýsingum fyrir árásirnar og ætlunum um skotmörk, svo eitthvað sé nefnt, í hópnum.

Blaðamaðurinn er Jeffrey Goldberg, sem vinnur sem ritstjóri The Atlantic.

Bætt í hópinn nokkrum dögum fyrir árásirnar

Bandaríkjamenn hófu þann 15. mars umfangsmiklar árásir gegn Hútum í Jemen, sem ráðamenn vestanhafs segja ætlað að binda enda á árásir þeirra á frakt- og herskip á Rauðahafi, sem staðið hafa yfir um nokkuð skeið.

Frá því hernaður Ísraela gegn Hamas á Gasaströndinni hófst í október 2023 hafa Hútar gert ítrekaðar dróna- og eldflaugaárásir á fraktskip og herskip á Rauðahafi. Hútar hafa gert árásir á rúmlega hundrað fraktskip með eldflaugum og drónum. Tvo skip hafa sokkið og fjórir dáið í þessum árásum.

Verulega hefur dregið úr þessum árásum að undanförnu, að hluta til vegna færri siglinga um svæðið, en leiðtogar Húta lýstu því yfir fyrr í mánuðinum að þeir ætluðu að hefja þær aftur.

Nokkrum dögum áður en árásirnar hófust fékk blaðamaður Atlantic skilaboð á Signal um að einhver sem gekk undir nafninu Michael Waltz vildi eiga samskipti við hann. Þeir höfðu hist áður og blaðamaðurinn samþykkti þetta en taldi mögulegt að þarna væri einhver að reyna að gabba hann.

Svo virðist ekki vera en tveimur dögum síðar fékk hann skilaboð um að búið væri að bæta honum í spjallhóp, með titil um Húta, og voru þar skilaboð frá Waltz um fund sem hafði átt sér stað í „ástandsherberginu“ svokallaða í Hvíta húsinu og að verið væri að gera áætlanir um næstu skref.

Á næstu mínútum birtust í hópnum skilaboð sem virtust vera frá Marco Rubio, utanríkisráðherra, JD Vance, varaforseta, Tulsi Gabbard, yfirmanni leyniþjónusta Bandaríkjanna, Scott Bessent, fjármálaráðherra, Pete Hegset, varnarmálaráðherra, John Ratcliffe, yfirmanni CIA, Steve Witkoff, erindreka Trumps gagnvart Mið-Austurlöndum og Úkraínu, og fleirum þar sem þau sögðu hverjir frá þeim myndu taka þátt í umræðunum.

Þetta var fimmtudaginn 13. mars.

Á þessum tíma segist blaðamaðurinn hafa verið sannfærður um að einhver væri að reyna að gabba hann. Það væri ómögulegt að æðstu embættismenn Bandaríkjanna í öryggismálum væru að leggja á ráðin um að hefja árásir á annað ríki í samskiptaforritinu Signal og hefðu fyrir mistök bætt honum, ritstjóra Atlantic, í hópinn.

Vance vildi bíða

Á föstudeginum sendi aðgangur JD Vance skilaboð í hópinn þar sem hann sagðist telja að þau væru að gera mistök. Bandaríkjamenn hefðu ekki mikilla hagsmuna að gæta þegar kæmi að Súesskurðinum. Hagsmunir Evrópu væru mun meiri og að fólk myndi ekki skilja af hverju verið væri að gera þessar árásir.

Einnig væri hætta á hækkandi olíuverði vegna árásanna.

Vance sagðist svo ekki viss um að Trump væri meðvitaður um það hversu mótsagnakennd þessar aðgerðir væru, miðað við yfirlýsingar hans í garð Evrópu að undanförnu. Vance velti vöngum yfir því að fresta árásum í mánuði og skoða stöðuna betur.

Þá svaraði Joe Kent, sem er maður sem Trump hefur tilnefnt til að stýra gagnhryðjuverkastarfsemi Bandaríkjanna og sagði að staðan yrði sú sama eftir mánuð. Það liggi ekki á neinu þegar kæmi að árásum á Húta.

John Ratcliffe, sem er nafn yfirmanns CIA, svaraði þá með skilaboðum sem blaðamaður Atlantic segir að tengist yfirstandandi aðgerð stofnunarinnar og hafi innihaldið leynilegar upplýsingar.

Hegseth tjáði sig þá næst og sagði að þetta yrði alltaf vandmeðfarið. Enginn vissi hverjir Hútar væru og því væri mikilvægt að keyra á skilaboðum um að Joe Biden, fyrrverandi forseta, hefði mistekist að stöðva þá og að þeir væru fjármagnaðir af klerkastjórninni í Íran.

Hann sagði að það myndi líklega engu breyta að bíða í nokkrar vikur. Hætt væri samt við því að upplýsingar um ætlanir þeirra myndu leka út og þeir myndu líta illa út.

Segja má að þær áhyggjur hafi átt rétt á sér, þar sem ritstjóri Atlantic var að lesa umræðu þeirra.

Hegseth sagði þetta í raun ekki snúast um Húta. Heldur snerist þetta um að opna á mikilvæga siglingaleið aftur og endurbyggja fælingarmátt Bandaríkjanna, sem Biden hefði látið grotna niður. Bregðast við af hörku til að koma í veg fyrir frekari árásir.

„AUMKUNARVERГ Evrópa

Mike Waltz birti því næst upplýsingar um skipasiglingar um Súesskurðinn og kvartaði yfir því hvað flotar Evrópu væru veikburða.

„Hvort sem það er núna eða eftir nokkrar vikur, verða það Bandaríkin sem munu opna þessar skipaleiðir.“

Waltz sagði svo að Trump hefði beðið um að kostnaðurinn við þessar aðgerðir yrði tekinn saman og að Evrópa yrði rukkuð.

Þá svaraði JD Vance og fór hann hörðum orðum um Evrópu, eins og hann hefur ítrekað gert áður.

„Ef okkur finnst við eiga að gera þetta, gerum þetta. Ég bara hata að bjarga Evrópu úr vandanum aftur“

Vance sagði einnig mikilvægt að draga úr hættu á því að Hútar svöruðu með árásum á olíuvinnsluinnviði Sádi-Arabíu.

Hegseth, varnarmálaráðherrann, tók undir það og sagðist deila „fyrirlitningu“ Vance á því hvernig Evrópa skýldi sér bakvið herafla Bandaríkjanna.

„Það er AUMKUNARVERT“

Hegseth sagði Waltz þó hafa rétt fyrir sér um að engir aðrir gætu stöðvað Húta nema Bandaríkjamenn.

Blaðamaður Atlantic segir að þá hafi einhver sem gekk undir nafninu „S M“ og sé líklega Stephen Miller, einn æðsti ráðgjafi Trumps, tjáð sig. Hann sagði að gera þyrfti ráðamönnum Evrópu og Egyptalands ljóst hvað Bandaríkjamenn vildu fá í staðinn og hvernig ætti að tryggja það.

„Ef Evrópa launar okkur ekki greiðan, hvað þá? Ef Bandaríkin opna þessar siglingaleiðir aftur með tilheyrandi kostnaði verður að fást einhver hagnaður í staðinn.“

Hegseth sagðist sammála og þannig lauk samskiptunum þann daginn.

Deildu leynilegum upplýsingum um árásir

Snemma að morgni laugardagsins 15. mars, dagsins sem árásirnar hófust, sendi Hegseth svo aftur skilaboð í hópinn. Blaðamaður Atlantic segist ekki ætla að fara út í þau skilaboð þar sem þau hafi í raun snúist um háleynilegar ætlanir Bandaríkjanna og vegna þess að innihald þeirra gæti mögulega verið notað gegn starfsmönnum leyniþjónusta ríkisins.

Skilaboðin innihéldu einnig upplýsingar um skotmörk í Jemen, hvaða vopn yrðu notuð og í hvaða röð árásir yrðu gerðar á þessi skotmörk. Þar stóð nákvæmlega hvenær fyrstu árásirnar myndu hefjast og beið blaðamaðurinn þá með augun límd við ská síma sinn á bílastæði verslunar, eftir því hvort þessi samskiptahópur væri raunverulegur eða ekki.

Svo reyndist svo sannarlega vera, því sprengjurnar byrjuðu fljótt að lenda í Jemen.

Því fór blaðamaðurinn aftur í Signal þar sem Waltz hafði sent inn ný skilaboð. Þar hrósaði hann öllum fyrir frábært starf. Ratcliffe, Rubio og aðrir tóku undir. Það gerði Susie Wiles, starfsmannastjóri Hvíta hússins einnig.

Blaðamaðurinn yfirgaf hópinn og í morgun sendi hann út tölvupósta og skilaboð til Waltz á Signal, þar sem hann spurði meðal annars hvort þessi hópur hefði verið raunverulegur og hvort þau hefðu vitað að honum hefði verið bætt inn í hópinn á sínum tíma.

Talsmaður þjóðaröryggisráðsins svaraði og sagði hópinn raunverulegan og að verið væri að fara yfir hvernig það hefði gerst að honum hefði verið bætt þar inn.

„Þessi þráður er skýrt dæmi um þá djúpu og umfangsmiklu umhugsun og samráð sem á sér stað milli háttsettra embættismanna.“

Talsmaður Vance sagði í svari sínu að þrátt fyrir hvernig það liti út í þræðinum, væri hugsunargangur hans í takt við Trump. Hann styddi utanríkisstefnu Trumps að fullu.

Líklega lögbrot

Notkun Signal til þessarar umræðu og skipulagningar er mögulega brot á lögum Bandaríkjanna varðandi varnir gegn njósnum, samkvæmt sérfræðingum sem Atlantic ræddi við. Þeir sögðu samskiptaforritið ekki vottað af stjórnvöldum og innan stjórnkerfis Bandaríkjanna sé hægt að finna aðrar og öruggari leiðir fyrir samskipti sem þessi.

Þá hafði Waltz stillt hópinn þannig að skilaboð í honum hverfa innan nokkurra vikna. Lög Bandaríkjanna segja til um að geyma eigi opinber gögn og samskipti og eru skilaboð eins og smáskilaboð og opinber samskipti gegnum netið skilgreind sem opinber gögn.

Eins og frægt er var Trump á árum áður harðlega gagnrýninn á Hillary Clinton, fyrrverandi mótframbjóðanda sinn, fyrir að nota einkavefþjón fyrir opinbera tölvupósta á sínum tíma. Meðal annars hefur Trump ítrekað kallað eftir því að hún hefði átt að enda í fangelsi vegna þessa.

Mike Waltz gagnrýndi dómsmálaráðuneytið árið 2023 fyrir að grípa ekki til aðgerða þegar í ljós kom að þjóðaröryggisráðgjafi Bidens hafði á árum áður sent leynilegar upplýsingar á þetta póstfang Clinton. 

Hegseth hefur einnig verið gagnrýninn á meðhöndlun leynilegra upplýsinga í forsetatíð Bidens.

Trump sjálfur var spurður út í málið í dag. Hann sagðist ekki hafa heyrt af því en tók fram að hann væri ekki aðdáandi Atlantic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×