Erlent

Vill far­tölvu í fangelsið

Samúel Karl Ólason skrifar
Luigi Mangione i dómsal í New York í febrúar.
Luigi Mangione i dómsal í New York í febrúar. AP/Steven Hirsch

Luigi Mangione, sem grunaður er um að hafa myrt Brian Thompson, forstjóra eins stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, á götu úti í New York, vill hafa fartölvu í fangelsinu. Hann situr í alríkisfangelsi í New York en hann hefur verið ákærður fyrir morð og framkvæmd hryðjuverks.

Mangione, sem er 26 ára gamall, sat fyrir Thompson fyrir utan hótel í New York í desember þar sem forstjórinn var að halda fjárfestaráðstefnu. Hann hefur lýst yfir sakleysi sínu gegn ákæru í New York en hann stendur einnig frammi fyrir alríkisákæru þar sem hann gæti verið dæmdur til dauða, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Þar að auki hefur hann verið ákærður fyrir skjalafals og vopnaburð í Pennsylvaínu, þar sem hann var handtekinn nokkrum dögum eftir morðið. Enn sem komið er hefur Mangione eingöngu tekið afstöðu til ákæranna í New York.

Sjá einnig: Skrifaði um að drepa „baunateljara“

Margir Bandaríkjamenn virðast líta á Mangione sem hetju og hefur fólk gefið peninga í varnarsjóð hans, mætt í dómsal til að styðja hann og sent honum bréf.

Sjá einnig: Opnar sig um rútínuna í fangelsinu

Lögmenn hans lögðu fram kröfu í gær um að hann fengi fartölvu til að geta farið betur yfir gögn málsins fyrir réttarhöldin. Um er að ræða mikið magn skjala, myndbanda og annarra gagna. Alls eru þetta rúmlega fimmtán þúsund blaðsíður af skjölum og lögmennirnir segja að þeir fái ekki nægilega mikinn tíma með Mangione svo hann geti undirbúið sig almennilega fyrir réttarhöldin.

Þess vegna þurfi hann að geta farið yfir gögnin utan heimsóknartíma.

Samkvæmt frétt CNN hafa sambærilegar kröfur verið samþykktar í öðrum svipuðum málum.

Saksóknarar í málinu hafa mótmælt kröfunni og hafa þeir samkvæmt lögmönnum Mangione vísað til þess að vitnum í málinu hafi verið hótað.

Lögmennirnir segja að Mangione muni ekki geta tengst netinu í tölvunni, spilað leiki eða gert nokkuð annað en að skoða gögn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×