Um er að ræða langar sameindir kolefna sem fundust í grjóti og er talið að hafi verið brot úr fitusýru. Slíkar sýrur eru meðal frumeininga lífs á jörðinni, samkvæmt grein á vef Geimvísindastofnunnar Bandaríkjanna (NASA) um uppgötvunina.
I came, I saw, I detected some of the largest organic molecules on Mars using my onboard science lab. 👀
— Curiosity Rover (@MarsCuriosity) March 25, 2025
It could be the best evidence yet that organic chemistry advanced toward the kind of complexity required for an origin of life on the Red Planet. https://t.co/gheRVvhmrd pic.twitter.com/2bWEkkK9zm
Lífverur mynda frumuhimnur úr fitusýrum, meðal annars til að verja frumuveggi. Þær geta þó einnig orðið til í lífrænum ferlum án lífvera, eins og þegar vatn blandast við steinefni í kringum við hveri neðansjávar.
Sýnið var tekið í maí 2013 á stað í Gale-gígnum sem var eitt sinn botn stöðuvatns. Sýni sem tekin voru þar innihalda fjölmörg efni sem hafa varpað ljósi á sögu svæðisins.
Í grein NASA segir ómögulegt að skera úr um við hvaða aðstæður þessar sameindir urðu til en fundurinn hefur þó gert vísindamenn spennta. Þessar stóru sameindir auka líkurnar á því að líf hafi fundist á Mars á árum áður.
Sömuleiðis þykir þessi uppgötvun auka líkurnar á því að hægt verði að finna ummerki lífs einhvern tímann og dregur hún úr áhyggjum vísindamanna varðandi það að allar slíkar sameindir hafi eyðilagst vegna mikillar geislunar og slæmra aðstæðna á Mars undanfarna tuga milljóna ára.
„Það eru vísbendingar um að fljótandi vatn hafi mátt finna í Gale-gíg í milljónir ára og jafnvel mun lengur, sem þýðir að það var nægur tími fyrir líffræðilega ferla í þessum gígum á Mars,“ er haft eftir einum vísindamannanna sem greindu sýnið.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Curiosity finnur lífrænar sameindir á Mars en það hefur bandaríski könnunarjeppinn Perseverence einnig gert.
Sjá einnig: Fundu óvænt merki um mögulegt örverulíf á Mars
Uppgötvunin þykir einnig jákvæð varðandi ætlanir forsvarsmanna NASA þegar kemur að því að sækja sýni til Mars. Perseverance hefur safnað sýnum í og við Jezero-gíginn, sem var fullur af vatni á árum áður. Með því að koma sýnunum til jarðar vonast vísindamenn til að geta grandskoðað þau og mögulega svara þeirri spurningu hvort líf hafi á einhverjum tímapunkti fundist á Mars.
Sjá einnig: Leita nýrra leiða til að sækja sýni til Mars
Sýnið sem stóru sameindirnar fundust í gætu innihaldið enn stærri sameindir en rannsóknarbúnaður Curiosity er ekki nægilega öflugur til að greina það betur.