Innlent

Sjálf­stæðis­flokkur skákar Sam­fylkingu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir var kjörin formaður Sjálfstæðisflokksins um mánaðarmótin. Eftir formannsskiptin mælist fylgi flokksins í fyrsta sinn í rúm tvö ár yfir fylgi Samfylkingar.
Guðrún Hafsteinsdóttir var kjörin formaður Sjálfstæðisflokksins um mánaðarmótin. Eftir formannsskiptin mælist fylgi flokksins í fyrsta sinn í rúm tvö ár yfir fylgi Samfylkingar. Vísir/Anton Brink

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins samkvæmt nýrri könnun Maskínu og mælist með tuttugu og fjögurra prósenta fylgi.

Þetta er í fyrsta sinn í rúm tvö ár sem Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærri en Samfylkingin í könnun Maskínu. Fylgi Samfylkingar jókst hratt eftir að Kristrún Frostadóttir tók við stjórnartaumunum í október 2022. Var þá um fimmtán prósent en rauf tuttugu prósenta múrinn í könnun sem var gerð í janúar árið 2023. Í sömu könnunn fór Samfylkingin í fyrsta sinn í að minnsta kosti langan tíma yfir Sjálfstæðisflokkinn og hefur haldið þeirri stöðu síðan - þar til nú.

 Um er að ræða fyrstu könnunina frá því Guðrún Hafsteinsdóttir tók við formennsku um mánaðarmótin. Sjálfstæðisflokkurinn eykur fylgi sitt um þrjú prósentustig og er það mesta breytingin á milli mánaða.

Könnunin var gerð á dögunum 5. til 19. mars og nær því ekki yfir mögulegar breytingar í kjölfar máls Ásthildar Lóu Þórsdóttur og ráðherraskipta. Fylgi stjórnarflokka helst nokkuð stöðugt milli kannana; Samfylking með 23 prósent, Viðreisn með fimmtán og Flokkur fólksins með 8,5 prósent. 

Þá er Miðflokkur áfram með ellefu prósent og Framsókn sjö. Flokkarnir þrír sem ekki náðu inn á þing í síðustu kosningum eru áfram á svipuðu róli. Sósíalistar með fimm prósent en Vinstri græn og Píratar með um þrjú prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×