Innlent

Ung­lingur hrækti á lög­reglu­mann

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Lögreglan sinnti ýmsum verkefnum í nótt.
Lögreglan sinnti ýmsum verkefnum í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Sex manns gista í fangaklefa og 64 mál voru skráð í dagbók lögreglunnar. 

Lögreglan handtók ungling í miðborginni fyrir að hrækja á lögreglumann. Sá fór heim í fylgd forráðamanns að viðræðum loknum. Þá voru tveir unglingar handteknir fyrir slagsmál og fíkniefnamisferli. 

Að auki sinnti lögregla eftirliti með dyravörðum á hinum ýmsu skemmtistöðum miðbæjarins. Síðustu helgi voru tveir dyraverðir fluttir á sjúkrahús frá Ingólfstorgi eftir að átök brutust út milli starfsmanna tveggja fyrirtækja sem bjóða upp á dyravarðaþjónustu. Heimildir fréttastofu herma að kylfum og hnífum hafi verið beitt í árásinni

Nokkrar tilkynningar vegna heimilisófriðar

Í miðbænum var einn handtekinn fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu og segja ekki til nafns. Sá var mjög ölvaður og gistir nú í fangaklefa. Í póstnúmeri 108 handtók lögregla einstakling grunaðan um sölu fíkniefna og fleiri brot. Sá gistir einnig í fangaklefa. 

Í Hafnarfirði var tilkynnt um heimilisófrið og í dagbók lögreglu segir að einn hafi verið vistaður í fangaklefa vegna málsins. Þá var tilkynnt um mikinn hávaða í fjölbýli í Garðabæ en þar var um að ræða eðlilegar heimiliserjur, eins og það er orðað í dagbókinni. 

Í Efra-Breiðholti var einnig tilkynnt um heimilisófrið. Fram kemur að gerandi hafi verið farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði en fundist skömmu síðar og verið vistaður í fangageymslu. 

Lögreglustöð 4, sem sinnir verkefnum í Grafarvogi, Grafarholti, Árbæ og Mosfellsbæ, barst einnig tilkynningum hávaða í fjölbýli, sem aftur reyndist vera sökum eðlilegra heimiliserja. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×