Handbolti

Kristján Örn og fé­lagar töpuðu stigi í Íslendingaslag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Örn Kristjánsson og félagar misstu frá sér sigurinn á lokamínútum leiksins.
Kristján Örn Kristjánsson og félagar misstu frá sér sigurinn á lokamínútum leiksins. Vísir/Anton Brink

Skanderborg AGF tapaði dýrmætu stigi í toppbaráttu dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í kvöld þegar liðið gerði jafntefli á heimavelli í Íslendingaslag á móti Ribe-Esbjerg.

Ribe-Esbjerg tryggði sér 25-25 jafntefli með marki rúmri hálfri mínútu fyrir leikslok og Skanderborg nýtti ekki lokasóknina sína.

Landsliðsmaðurinn Kristján Örn Kristjánsson var með fjögur mörk og fimm stoðsendingar fyrir Skanderborg í leiknum en hann tapaði boltanum tvisvar á lokasprettinum þegar liðið missti niður tveggja marka forskot.

Skanderborg hafði náð í ellefu stig af tólf mögulegum í síðustu sex leikjum á undan en þetta eina stig nægði samt til að koma liðinu upp í þriðja sætið.

Kristján nýtti fjögur af átta skotum sínum og var með næst hæstu framlagseinkunnina í sínu liði.

Elvar Ásgeirsson skoraði tvö mörk fyrir Ribe-Esbjerg og Ágúst Elí Björgvinsson varði fjögur skot. Elvar klikkaði á víti í leiknum.

Ribe-Esbjerg er áfram í tólfta sætið en liðið hefur aðeins unnið fimm af 24 leikjum í deildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×