Átakið hófst formlega fimmtudaginn 3. apríl en það og nær það til fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka og íbúa Sveitarfélagsins Árborgar. Grunnstefið í áktainu „Gefumíslensku séns” er að hvetja Íslendinga til að tala íslensku við fólk af erlendum uppruna en skipta ekki strax yfir í ensku. Átakinu er einnig ætlað að varpa ljósi á þá staðreynd að allir geta lagt sitt af mörkum við að hjálpa fólki að læra málið.
Sandra D. Sigurðardóttir hjá Fræðslunetinu, Esther Erla Jónsdóttir hjá Árborg og Helga Kristín Sæbjörnsdóttir hjá Háskólafélagi Suðurlands vita allt um „Gefum íslensku séns“.
„Þetta gengur fyrst og fremst út á það að leyfa íbúum af erlendum uppruna að reyna sig áfram í íslensku án þess að þau séu dæmd fyrir frammistöðu sína þannig að Íslendingar séu líka að gefa þeim smá tækifæri til þess að standa sig og tala,“ segir Helga og Sandra bætir við.
„Við erum ekki bara að hjálpa fólki, sem er að læra íslensku að æfa sig í að tala því við erum líka að hjálpa Íslendingum að æfa sig að hlusta á íslenskuna með hreim og hlusta á íslensku, sem er allskonar og þess vegna þurfum við að gefa íslenskunni sjéns.“

Verkefnið „Gefum íslensku séns“ varð til hjá Háskólasetri Vestfjarða og hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar, bæði innan lands og utan. Þessi sunnlenska útgáfa er unnin með samþykki og velvild Vestfirðinganna.
En hvað eru margir íbúar í Árborg af erlendum uppruna, er það vitað?
„Um það bil 30 prósent og í sveitarfélaginu eru töluð um 38 tungumál,“ segir Esther Erla.
