Innlent

Með kíló af kókaíní í far­angrinum

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn játaði brot sitt skýlaust.
Maðurinn játaði brot sitt skýlaust. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenskan karlmann í fimmtán mánaða fangelsi fyrir smygl á um kílói af kókaíni með flugi til landsins í nóvember 2023.

Maðurinn var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot en hann kom með flugi til Keflavíkur frá Spáni aðfaranótt sunnudagsins 19. nóvember 2023. Maðurinn var með efnin falin í farangurstösku. Styrkleiki efnanna var 84 prósent og voru þau ætluð til dreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Maðurinn játaði brot sitt skýlaust en í dómi segir að hann hafi ekki áður gerst sekur um refsivert brot.

Af rannsóknargögnum var ekki séð að maðurinn hafi verið eigandi fíkniefnanna, að hann hafi skipulagt innflutninginn eða komið að honum að öðru leyti að flytja efnin til landsins.

Dómari í málinu mat hæfilega refsingu vera fimmtán mánaða fangelsi en frá dregst sá tími sem hann sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins, alls fimm dagar. Honum var jafnframt gert að greiða málsvarnarþóknun til skipaðs verjanda, eina og hálfa milljón króna, aksturskostnað og annan sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×