Innlent

Höfðar mál gegn Ís­landi vegna úr­gangs­mála

Kjartan Kjartansson skrifar
Íslensk stjórnvöld hafa ekki hirt um að innleiða EES-reglur um úrgang og umbúðir.
Íslensk stjórnvöld hafa ekki hirt um að innleiða EES-reglur um úrgang og umbúðir. Vísir/Vilhelm

Eftirlitsstofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu hefur vísað tveimur málum sem tengjast úrgangi til EFTA-dómstólsins og áminnt Ísland fyrir brot á reglum um úrgang. Áminningin er vegna skorts á áætlunum um meðhöndlun og forvarnir gegn úrgangi.

Íslensk stjórnvöld hafa fengið formlegt áminningarbréf vegna brota á EES-reglum um úrgang eftir eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Stofnunin hefur eftirlit með því að EES-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein fylgi reglum evrópska efnahagssvæðisins.

Ísland er áminnt fyrir að tryggja ekki að áætlanir um meðhöndlun úrgangs og forvarnir gegn úrgangi séu til staðar á landsvísu í samræmi við rammatilskipun um úrgang. Formlegt áminningarbréf er sagt fyrsta skrefið í samningsbrotamáli.

Enn hafi nokkur íslensk sveitarfélög ekki sett á fót svæðisbundnar útgangsstjórnunaráætlanir eins og þeim sé skylt samkvæmt tilskipuninni. Þá hafi landsbundin áætlun um forvarnir gegn myndun úrgangs ekki verið uppfærð eins og ætlast sé til.

Höfum ekki innleitt að fullu reglur um umbúðir

Þá vísaði ESA tveimur aðskildum málum sem tengjast úrgangi til EFTA-dómstólsins þar sem Ísland hefur aðeins innleitt EES-reglur að hluta til. Vísun mála til EFTA-dómstólsins er lokaskrefið í formlegum samningsbrotamálum ESA gegn aðildarríkjum.

Fyrra málið er sagt varða urðun úrgangs en reglurnar sem Ísland hefur enn ekki innleitt að fullu eiga að takmarka magn úrgangs sem er sent til urðunar og setja fram rekstrarkröfur fyrir urðunarstaði til að vernda heilsu manna og umhverfið. ESA áminnti Ísland í ágúst árið 2022 og rökstuddi það álit í febrúar 2023.

Hitt málið snýst um að Ísland hafi ekk innleitt að fullu reglur um umbúðir og umbúðaúrgang sem kveða á um hvaða tegundir umbúða megi setja á markað innan evrópska efnahagssvæðisins. Formlegt áminningarbréf var gefið út vegna þess í mars 2022 og álit ESA rökstutt í maí sama ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×