Innlent

Kynnir á­form um að leggja niður stjórn Sjúkra­trygginga

Kjartan Kjartansson skrifar
Stjórn Sjúkratrygginga á tæpt ár eftir að skipunartíma sínum. Heilbrigðisráðherra vill leggja hana niður.
Stjórn Sjúkratrygginga á tæpt ár eftir að skipunartíma sínum. Heilbrigðisráðherra vill leggja hana niður. Stöð 2/Egill

Alma Möller, heilbrigðisráðherra, hefur lagt fram áform um að leggja niður stjórn Sjúkratrygginga Íslands. Breytingin er sögð í samræmi við stefnu stjórnvalda um að einfalda yfirstjórn stofnana og hagræða í ríkisrekstri.

Með frumvarpinu, sem er komið í samráðsgátt stjórnvalda, yrði forstjóra Sjúkratrygginga falin þau verkefni sem stjórn hefur nú á sinni könnu, að því er segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Hlutverk forstjórans verði ennfremur skýrt frekar í lögunum.

Ráðuneytið vísar til þess að í tillögum starfshóps forsætisráðherra um hagræðingu í ríkisrekstri hafi verið lagt til að stjórnir almennra stofnana yrðu lagðar niður. Slíkar stjórnir hafi oft óljósa stöðu og hlutverk. Hætta sé því á að skil á milli ábyrgðar stjórnar og forstöðumanns stofnunar verði óljós. Fjallað hafi verið um þetta í opinberum skýrlum á undanförnum tíu árum.

Frestur til að skila inn umsögnum um frumvarpsdrögin er til 30. apríl en stefnt er að því að leggja það fram á haustþingi. Skipunartími núverandi stjórnar Sjúkratrygginga er út mars á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×