Útsýnisþyrla af gerðinni Bell 206L-4 LongRanger IV hrapaði í Hudson-á við bryggju 40 New Jersey-megin eftir um korters útsýnistúr um 15:17 að staðartíma.

Vitni á vettvangi sögðu aftari þyrlublöðin hafa brotnað af í miðju flugi áður en þyrlan snerist á hvolf og hrapaði í ána. Allir sex um borð létust í slysinu en lík þeirra voru dregin upp úr vatninu í gærkvöldi.
Samkvæmt lögregluyfirvöldum voru um borð í þyrlunni hjónin Agustín Escobar, forstjóri yfir járnbrautargrunnvirkjum hjá Siemens Mobility, og Merce Camprubi Montal sem voru í fríi með þremur börnum sínum, fjögurra, fimm og ellefu ára gömlum, auk 36 ára flugmanns sem ekki er vitað hver var. Fjölskyldan var í heimsókn frá Barcelona.
Nú er búið að birta hrollvekjandi mynd af síðustu andartökum fjölskyldunnar áður en þau stigu um borð í þyrluna. Þyrlufyrirtækið New York Helicopter Tours hefur ekki tjáð sig um birtingu myndanna.
