Þar með jafna þeir síðustu tollahækkun Trumps, sem ítrekað hefur bætt í hótanir sínar í garð Kína. Raunar hafa Kínverjar enn ekki jafnað að fullu, því bandarísk stjórnvöld ítrekuðu í gærkvöldi að svokallaður fentanýl-tollur sem settur var á fyrir mörgum vikum á ákveðna kínverskar vörur væri enn í gildi. Því eru tollar á kínverskar vörur allt að 145 prósentum í Bandaríkjunum.
Úrsúla von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir að ESB sé nú í viðræðum við Bandaríkin um að lækka boðaðar tollaálögur áður en níutíu daga fresturinn sem Trump boðaði á dögunum rennur út.
Hún segir þó að á sama tíma sé verið að útfæra aðgerðir sem gripið verði til gagnvart Bandaríkjunum, til mótvægis, náist ekki að semja. von der Leyen sagði á blaðamannafundi í gær að sama hvernig fer, þá séu samskipti Bandaríkjanna og Evrópu breytt um alla framtíð vegna tollanna.
Í morgun barst síðan ákall frá Xi Jinping forseta Kína þar sem hann hvatti Evrópusambandið til þess að taka höndum saman við Kínverja í baráttunni við tollahækkanir Trumps.