Fótbolti

Hollywood-liðið komið upp í B-deild

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gleðin leyndi sér ekki hjá Ryan Reynolds, öðrum eiganda Wrexham.
Gleðin leyndi sér ekki hjá Ryan Reynolds, öðrum eiganda Wrexham. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Velska knattspyrnuliðið Wrexham, sem er í eigu Hollywood-leikaranna Ryan Reynolds og Rob McElhenny, tryggði sér í dag sæti í ensku B-deildinni með öruggum 3-0 sigri gegn Charlton.

Sagan ótrúlega um Wrexham heldur áfram, en frá því að Reynolds og McElhenny keyptu liðið í nóvember 2020 hefur Wrexham flogið úr utandeild og upp í ensku B-deildina.

Fyrir leik dagsins sat Wrexham í 2. sæti ensku C-deildarinnar og gat með sigri tryggt sér sæti í B-deildinni, ásamt Birmingham, sem hafði þegar tryggt sér sigur í deildinni. Charlton sat hins vegar í 5. sæti og hafði þegar tryggt sér sæti í umspili um sæti í B-deild.

Heimamenn í Wrexham byrjuðu leikinn af miklum krafti og mörk frá Oliver Rathbone og Sam Smith á 15. og 18. mínútu komu liðinu í 2-0.

Þannig var staðan í hálfleik og alveg þar til áðurnefndur Smith bætti öðru marki sínu, og þriðja marki Wrexham, við á 81. mínútu og þar við sat. Niðurstaðan því öruggur 3-0 sigur Wrexham og sæti í ensku B-deildinni tryggt. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í leikslok og fólk streymdi inn á völlinn til að fagna sögulegum sigri í sögu Wrexham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×