Að baki Gavia Invest standa InfoCapital ehf., sem er fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar, E&S 101 ehf, sem er á vegum Jonathan Rubini, sem er einn ríkasti maður Alaska og einn af eigendum Keahótela, og Andra Gunnarssonar, lögmanns og fjárfestis. E&S 101 er nú þegar á meðal stærstu hluthafa fasteignafélagsins Kaldalóns.
Einnig er félagið Pordoi ehf., sem Jón Skaftason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Strengs og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá 365 miðlum, fer fyrir á bak við Gavia Invest. Jón er forsvarsmaður Gavia, að því er kemur fram í flögguninni.
Eins og greint var frá í morgun hefur Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, selt allan 12,7 prósenta hlut sinn í Sýn fyrir tæplega 2,2 milljarða króna. Samhliða sölunni mun Heiðar láta af störfum sem forstjóri félagsins um mánaðarmótin.
Fjárfestingafélagið Ursus, sem er í eigu Heiðars, gekk frá sölu á bréfunum um helgina á genginu 64 krónur á hlut. Það er rúmlega níu prósentum hærra gengi en hlutabréfaverð Sýnar stóð í við lokun markaða síðastliðinn föstudag. Heiðar, sem tók við starfi forstjóra Sýnar árið 2019 eftir að hafa áður verið stjórnarformaður félagsins, var fyrir söluna stærsti hluthafi félagsins.