Vonast er til þess að hægt verði að skjóta geimfarinu á loft frá Flórída þann 6. maí og á að notast við Atlas V eldflaug frá United launch alliance, sem er samstarfsvettvangur Boeing og Lockheed Martin.
Árið 2014 gerðu forsvarsmenn Boeing 4,2 milljarða dala samning við Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, um að þróa Starliner til að senda geimfara til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Til stóð að skjóta geimfarinu fyrst út í geim árið 2019 en því var ítrekað frestað út það ár.
#Starliner is fully fueled for the Crew Flight Test (CFT), now targeted to launch to the @Space_Station on May 6.
— Boeing Space (@BoeingSpace) April 5, 2024
Read more about the propellent loading operation and what's next for the spacecraft: https://t.co/HN6jjnkWf9 pic.twitter.com/KAgQ1SoIt1
Þegar Starliner fór fyrst á loft, í desember 2019, misheppnaðist geimskotið vegna þess að innri klukka geimfarsins var ekki í samræmi við innri klukku Atlas V-eldflaugarinnar sem notuð var til að skjóta Starliner á Loft. Því komst geimfarið aldrei á sporbraut.
Tilraun tvö misheppnaðist vegna nokkurra ventla sem festust. Næsta geimskot heppnaðist og var geimfarið sent, ómannað, til geimstöðvarinnar í maí 2022.
Þá stóð til að senda menn til geimstöðvarinnar með Starliner síðasta sumar en því geimskoti var einnig frestað og á loks að verða af geimskotinu þann 6. maí.
Sjá einnig: Boeing í basli með Starliner
Geimfararnir sem verða um borð í Starliner í næsta mánuði eru þau Barry Wilmore og Sunita Williams. Þau hafa bæði starfað fyrir NASA sem geimfarar og fyrir sjóher Bandaríkjanna sem flugmenn.
Á sama tíma og Boeing gerði samninginn við NASA gerði geimvísindastofnunin einnig samning við SpaceX um þróun sambærilegs geimfars. Sá samningur var töluvert minni en þrátt fyrir það hefur geimfar SpaceX, sem kallast Crew Dragon, ítrekað verið notað til mannaðra geimferða, bæði á vegum NASA til geimstöðvarinnar og til einkaferða, á undanförnum árum.