Fótbolti

Til­einkaði gamla þjálfaranum sigurmarkið: „Þetta mark var fyrir Kristján“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Úlfa Dís fagnar marki kvöldsins með liðsfélögum sínum.
Úlfa Dís fagnar marki kvöldsins með liðsfélögum sínum. Vísir/Diego

Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir skoraði eina mark leiksins er Stjarnan vann langþráðan 1-0 sigur gegn Keflavík í Bestu-deild kvenna í kvöld. Hún tileinkaði Kristjáni Guðmundssyni, fyrrverandi þjálfara Stjörnunnar, markið.

„Tilfinningin er mjög góð eftir þennan leik. Það var bara gott að vera með boltann aftur og fá að spila og njóta,“ sagði Úlfa Dís í leikslok.

Hún skoraði eina mark leiksins eftir rétt tæplega klukkutíma leik og það mátti sjá langar leiðir að henni var létt þegar boltinn söng í netinu.

„Ég var búinn að bíða nokkra leiki eftir því að skora og nú loksins kom það.“

Þá segir hún liðið einnig ætla að byggja á því að hafa haldið hreinu í kvöld, í fyrsta sinn á tímabilinu.

„Við stefnum á að byggja ofan á það og þetta var bara liðsheldin sem skilaði þessu í dag. Við vorum allar að fórna okkur.“

Hún segir þó blendnar tilfinningar hafa farið um hana í leiknum, enda var þetta fyrsti leikur liðsins eftir að Kristján Guðmundsson, sem hafði þjálfað liðið frá árinu 2018, sagði starfi sínu lausu.

„Þetta eru blendnar tilfinningar og við söknum allar Kristjáns. En okkur lýst mjög vel á nýja þjálfarann [Jóhannes Karl Sigursteinsson]. En ég vil bara segja að þetta mark var fyrir Kristján,“ sagði Úlfa Dís að lokum.


Tengdar fréttir

„Takk fyrir að berjast alltaf fyrir okkur stelpunum“

Kristján Guðmundsson hefur stýrt sínum síðasta leik hjá kvennaliði Stjörnunnar en hann ákvað að hætta með liðið eftir tap á móti Víkingi í síðustu viku. Stjörnustelpurnar eru þakklátar fráfarandi þjálfara sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×