Lífið

Halda styrktartónleika eftir sviplegt dauðsfall

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Kristinn Freyr, Kristín Helga og Ólöf Erla Fram undan eru flutningar til Eyja því þar er fjölskylda Kristins Freys.
Kristinn Freyr, Kristín Helga og Ólöf Erla Fram undan eru flutningar til Eyja því þar er fjölskylda Kristins Freys. Vísir/Ernir
„Ég er sjómaður en hef verið frá vinnu utan heimilis síðan í febrúar. Dæturnar hafa þurft á mér að halda,“ segir Kristinn Freyr Þórsson sjómaður sem missti konu sína, Ólöfu Birnu Kristínardóttur, í byrjun september.

Dæturnar, Kristín Helga og Ólöf Erla, eru þriggja og eins árs.

Ólöf Birna hafði hormónatengdan sjúkdóm sem fyrst varð vart þegar hún fór á pilluna, að sögn Kristin Freys.

„Hún fór seint til læknis og var þá komin með æxli í brjósti og nára en með réttum lyfjum var hún nær laus við þau árið 2010,“ lýsir hann og heldur áfram:

„Þegar hún varð ólétt fyrst varð hún að hætta á lyfjunum og æxlin komu aftur, læknarnir lögðu ekki í að taka þau, enda voru þau til friðs.

Á meðgöngu yngri dótturinnar seig á ógæfuhliðina, æxlin stækkuðu og fjölguðu sér og áformað var að nema þau burtu, barnið var tekið sjö vikum fyrir tímann en læknar töldu skurðaðgerð of áhættusama. Þá fóru að myndast sár í húðinni með sýkingum og blæðingum. Samt var Ólöf ótrúlega kraftmikil og jákvæð. Það bjóst enginn við að þetta færi svona.“

Ólöf Birna, Kristinn Freyr og dæturnar á góðri stundu.
Bjartsýnin jókst í ágúst er læknarnir náðu að loka sárinu, að sögn Kristins Freys. „Við skruppum þá á æskuslóðir Ólafar Birnu í Hrútafirðinum. Þann 27. ágúst, daginn sem við komum til baka, hélt hún að hún væri með ælupest en konu frá Heimahlynningu leist ekki á blikuna og fór með hana upp á Kvennadeild. Daginn eftir var hún komin í öndunarvél og stuttu seinna var hún dáin. Það var rosalegt áfall.“

Fram undan eru flutningar til Eyja hjá Kristni Frey og dætrum því þar er öll fjölskyldan hans. „Ég reikna með að fara á sjóinn aftur,“ segir hann. „Ef það gengur ekki upp fer ég að læra eitthvað annað.“

Á sunnudaginn klukkan 16 verða styrktartónleikar vegna þessarar litlu fjölskyldu í Guðríðarkirkju í Grafarholti, á vegum Kirkjukórs Lágafellssóknar. Þeir nefnast Jólaljós. Fjöldi mætra tónlistarmanna kemur þar fram og má nefna Ragga Bjarna, Bjarna Ara, Birgi Haraldsson rokkara og Kristínu R. Sigurðardóttur sópransöngkonu.

 

Þeim sem ekki komast á tónleikana en vilja láta eitthvað af hendi rakna er bent á reikning kirkjukórsins  0315 13 300516 kennitalan er: 551190 1109






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.