

Stjórn Actavis var sátt við að stjórnendur félagsins ákváðu að greiða ekki yfirverð fyrir bréf í króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva þegar fyrirtækið barðist um þann bita við bandaríska lyfjafyrirtækið Barr. Þetta sagði Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður og einn stærsti hluthafi Actavis, á aðalfundi félagsins í dag. Björgólfur sagði spennandi tíma framundan og líkur á umbreytingum í lyfjaheiminum á árinu.
Forstjóri þýska bílaframleiðandans DaimlerChrysler hefur staðfest að fyrirtækið eigi í viðræðum um sölu á Chrysler-hluta fyrirtækisins í Bandaríkjunum. Daimler keypti Chrysler árið 1998 en það hefur átt við viðvarandi taprekstur að stríða.
Englandsbanki greinir frá því á morgun hvort breytingar verði gerðará stýrivaxtastigi í Bretlandi. Greinendur eru ekki samhljóða hvort stýrivextir hækki eða verði látnir óbreyttir. Verði vextirnir hækkaðir eru miklar líkur á að þeir hækki um 25 punkta. Við það fara stýrivextir í Bretlandi í 5,5 prósent.
Sala á bifreiðum dróst talsvert saman hjá risunum á bandaríska bílamarkaðnum í mars miðað við sama tíma í fyrra. Samdrátturinn var langmestur, eða 12,4 prósent, hjá Ford. Á sama tíma varð aukning á sölu japanskra bíla vestanhafs. Toyota, sem stefnir á að verða umsvifamesti bílaframleiðandi í heimi á árinu, seldi 7,7 prósentum fleiri bíla í mars en á sama tíma í fyrra.
Sala á fasteignamarkaði jókst um 0,7 prósent á milli mánaða í febrúar. Þetta er þvert á spár greinenda, sem gerður ráð fyrir því því að sala myndi dragast saman annan mánuðinn í röð. Til samanburðar féll sala á fasteignamarkaði um 4,2 prósent í Bandaríkjunum í janúar. Tölurnar eiga ekki við um kaup á nýrri fasteign heldur kaup á eldri íbúðum.
Rússneska flugfélagið Aeroflot, sem er að stærstum hlut í eigu rússneska ríkisins, er sagt ætla að leggja fram kauptilboð í 39,9 prósenta hlut ítalska ríkisins í ítalska flugfélaginu Alitalia. Ítalski bankinn Unicredit er sagður standa að kaupunum ásamt Aeroflot.
Horfur í rekstri félaga í Kauphöllinni eru almennt ágætar og má gera ráð fyrir að áframhald verði á hækkun hlutabréfaverðs í ár, jafnvel meira en í fyrra. Gangi þetta eftir hækkar Úrvalsvísitalan um 37 prósent árinu. Þetta kemur fram í nýrri afkomuspá greiningardeildar Glitnis fyrir árið, sem kom út í dag.
Nafnávöxtun Festu lífeyrissjóðs var 18,8 prósent á árinu 2006, sem jafngildir 11,3 prósenta raunávöxtun. Í árslok 2006 var hrein eign til greiðslu lífeyris rúmir 48,6 milljarðar og hækkaði hún um 23,4 prósent á milli ára. Stjórn lífeyrissjóðsins mun á næsta aðalfundi leggja til að áunnin réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega verði aukin um 4 prósentum frá og með 1. janúar á þessu ári.
Heildarskuldir heimilanna við lánakerfið allt námu 1.325 milljörðum króna í lok síðasta árs. Þar af námu skuldir við innlánsstofnanir 708 milljónum króna. Þetta er 241 milljón meira en heimilin skulduðu við árslok árið 2005. Greiningardeild Glitnis segir hreina eignastöðu heimilanna aldrei hafa verið betri en nú.
Hollenska póstfyrirtækið TNT Post ætlar að segja upp 7.000 manns. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja ekki annan kost í stöðunni til að bregðast við aukinni samkeppni sem hafi skilað sér í samdrætti hjá fyrirtækinu.
Kjarrhólmi hefur keypt alla eignarhluti Fjárfestingarfélagsins Grettis og Landsbankans í TM, alls 35,37 prósent. Kjarrhólmi eignaðist til viðbótar 2,2 prósenta hlut og fer því með 37,57 prósenta hlut í tryggingafélaginu. Kaupverð allra bréfanna nam tæpum 19,4 milljörðum króna.
Þýski orkurisinn E.On hefur dregið til baka yfirtökutilboð sitt í spænska raforkufyrirtækið Endesa. Yfirtökutilboðið, sem hljóðaði upp á 42,3 milljarða evrur, 3.740 milljarða íslenskra króna, var afar umdeilt og lenti meðal annars inni á borði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði í dag eftir nokkra hagnaðartöku fjárfesta á helstu mörkuðum. Olíuverðið er þó enn yfir 65 bandaríkjadölum á tunnu. Verðið tók kipp uppá við eftir að sjóliðar voru handteknir á Persaflóa á föstudaginn fyrir rúmri viku.
Eimskip opnar aðra skrifstofu sína í Genúa á Ítalíu í dag, 2. apríl. Opnun skrifstofunnar er liður í markvissri uppbyggingu Eimskips í Evrópu og miðast að því að styrkja enn frekar stöðu félagsins á ítalska markaðnum, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Fasteignafélagið Nýsir hf og dótturfélög þess skiluðu 450,6 milljóna króna tapi á síðasta ári samanborið við 1.623 milljóna króna hagnað árið 2005. Helsta ástæðan eru gengisbreytingar og mikill vaxtakostnaður af framtíðarfjárfestingum á Íslandi og erlendis sem ekki eru farnar að skila fullri arðsemi, að því er segir í uppgjöri félagsins.
Króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva tapaði rétt tæpum 35,2 milljónum dala, jafnvirði 2,3 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. Til samanburðar nam tap fyrirtækisins tæpum 92 milljónum dala, tæplega 6,1 milljarði króna, árið á undan. Bandaríska lyfjafyrirtækið Barr keypti Pliva síðastliðið haust á 2,4 milljarða bandaríkjadali eða 170,5 milljarða íslenskra króna eftir harða samkeppni við Actavis um félagið.
Því var fagnað með formlegum hætti í Kauphöll Íslands nú um klukkan tíu að þau 25 fyrirtæki sem skráð eru á markað hér á landi yrðu hluti af hinum norræna OMX-hlutabréfamarkaði. Það þýðir meðal annars að félögin ganga inn í vísitölur OMX-hallarinnar, bæði hvað varðar almennan markað og einstakar greinar norræns atvinnulífs.
Fjárfestahópurinn CVC mun leggja fram að minnsta kosti 10 milljarða punda, jafnvirði um 1.300 milljarða íslenskra króna, yfirtökutilboð í bresku verslanakeðjuna Sainbury fyrir lok þessarar viku. Þetta staðhæfðu breskir fjölmiðlar um helgina.
Seðlabanki Indlands ákvað undir lok síðustu viku að hækka stýrivexti um fjórðung úr prósentustigi og standa vextirnir nú í 7,75 prósentum. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem bankinn hækkar stýrivexti í þeim tilgangi að halda aftur af verðbólgu. Stýrivextir á Indlandi hafa ekki verið hærri í tæp fjögur og hálft ár.
Heildarvelta í Kauphöll Íslands í nýliðnum mánuði nam 350 milljörðum króna og nemur heildarvelta ársins nú 1.329 milljörðum. Þetta er þriggja prósenta aukning frá sama tíma í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni. Hlutabréfavelta jókst um 18 prósent á milli ára en velta á skuldabréfamarkaði dróst saman.
Hátt verð á neysluvörum og laun sem hækka hægt eru helsta ástæða þess að væntingavísitala bandarískra neytenda hefur fallið. Hún hefur ekki verið lægri í hálft ár. Verðbólga hækkaði meira en búist var við í febrúar, eða um 0,3%, og er það mesta aukning síðan í ágúst á síðasta ári.
Ríkisútvarpið tapaði 420 milljónum króna í fyrra. Þetta rúmlega tvisvar sinnum meira en árið 2005 þegar tapið nam 196 milljónum króna. Verri afkomu má rekja til hækkunar fjármagnsgjalda og hækkunar á dagskrárefni vegna óhagstæðrar gengisþróunar auk þess sem afnotagjöld hafa ekki fylgt verðlags- og launaþróun. Eigið fé stofnunarinnar var neikvætt annað árið í röð. Í uppgjöri stofnunarinnar segir að það verði ekki unað
Gengi íslensku krónunnar styrktist um 8,4 prósenta á fyrstu þremur mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra veiktist gengi krónunnar um 12,2 prósent. Jöklabréf voru gefin út fyrir þrjá milljarða í dag en útgáfa sem þessi hefur áhrif á styrkingu krónunnar. Jöklabréf hafa verið gefin út fyrir 121 milljarð króna frá áramótum. Til samanburðar nam jöklabréfaútgáfan á öllu síðasta ári 175 milljörðum króna.
Rarik ohf, skilaði 381 milljóna króna tapi á fyrsta rekstrarári sínu. Rekstrartímabil fyrirtækisins nær frá ágúst til loka síðasta árs. Þar á undan hét fyrirtækið Rafmagnsveitur ríkisins en breyting varð þar á í ágúst þegar Rarkik yfirtók alla eignir og skuldbindingar Rafmagnsveitanna. Bæði félögin skluðu 787 milljóna króna hagnaði á öllu síðasta ári.
Olíufélagið ehf skilaði 334,5 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Þetta er talsverður samdráttur á milli ára en félagið hagnaðist um 883,4 milljónir króna árið 2005. Afkoman er í samræmi við rekstraráætlanir.
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum skilaði 6,8 milljóna króna tekjuafgangi á síðasta ári. Til samanburðar nam tekjuafgangur sambandsins rúmum 4,2 milljónum króna árið 2005.
Verðbólga mældist 1,9 prósent á evrusvæðinu í þessum mánuði, samkvæmt bráðabirgðaútreikningum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Þetta er 0,1 prósentustigi meira en í febrúar. Evrópski seðlabankinn hækkaði stýrivexti í byrjun mánaðar með það fyrir augum að halda aftur af verðbólguþrýstingi. Stýrivextir á evrusvæðinu hafa ekki verið hærri í fimm og hálft ár.
Ástralska lággjaldaflugfélagið Jetstar, dótturfélag ástralska flugfélagsins Qantas, hefur keypt níu farþegaflugvélar frá evrópska flugvélaframleiðandanum Airbus. Kaupverð er ekki gefið upp. Qantas horfir til þess að halda markaðsráðandi stöðu sinni með kaupunum.
Fjármálayfirvöld á Indlandi hefur ákveðið að skoða nánar kaup breska farsímarisanum Vodafone á 67 prósenta hlut í Hutchison Essar, fjórða stærsta farsímafélagi Indlands, áður en þau gefa græna ljósið á viðskiptin. Kaupsamningur Vodafone hljóða upp á 11,1 milljarð dala, jafnvirði 736,6 milljarða íslenskra króna.
R20, fjárfestingafélag Roberts Tchenguiz, breska fasteignamógúlsins, náins viðskiptafélaga Kaupþings og stjórnarmanns í Exista, hefur aukið enn frekar við hlut sinn í bresku matvörukeðjunni Sainsbury. Félag hans hefur aukið jafnt og þétt við hlut sinn og fer það nú með 4,6 prósenta hlut í þessari þriðju stærstu matvöruverslanakeðju Bretlands.