Upp­gjör: Vestri - ÍA 0-0 | Bæði lið fengu frá­bær færi til þess að tryggja sér sigurinn

Hjörvar Ólafsson skrifar
452167889_10230736258563740_6572241780119821715_n
vísir/hag

Vestri og ÍA gerðu markalaust jafntefli þegar liðin leiddu saman hesta sína á Kerecis-vellinum á Ísafirði í 17. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.

Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill en bæði lið spiluðu á varfærinn hátt, voru að þreifa fyrir sér og mikið var um slakar sendingar í uppspili liðanna. 

Undir lok fyrri hálfleiks fengu Skagamenn reyndar tvö góð færi en Hinrik Harðarson átti skot í stöng í dauðafæri og Eiður Aron Sigurbjörnsson bjargaði á línu eftir skot Steinars Þorsteinssonar. 

Þjálfarar liðanna náðu hins vegar báðir að kveikja eld hjá leikmönnum sínum í hálfleik og það færðist mikið fjör í leikinn í þeim síðari. 

Bæði lið náðu að setja boltann í netið í seinni hálfleiknum, Silas Dylan Songani fyrir Vestra og Árni Salvar Heimisson fyrir Skagamenn, en þau mörk fengu ekki að standa vegna rangstöðu. 

Vladimir Tufegdzic fékk svo besta færi leiksins þegar um það bil stundarfjórðungur var eftir af leiknum en hann lék þá á Árna Marínó Einarsson en Oliver Stefánsson truflaði serbneska framherjann nóg til þess að skot hans af stuttu færi fór í stöngina. 

Benedikt Warén og Marko Vardic fengu svo færi til þess að tryggja sínum liðum sigurinn undir lok leiksins en inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan markalaust jafntefli. 

Vestri er í næstneðsta sæti deildarinnar með 13 stig eftir þessi úrslit en HK er í sætinu fyrir ofan fallsvæðið með 14 stig og KR þar fyrir ofan með 15 stig. HK og KR eigast við í fallbaráttuslag í Kórnum annað kvöld. 

ÍA er aftur á móti í sjötta sæti með 25 stig en liðið er áfram í seilingarfjarlægð frá sætunum sem veita þátttökurétt í Evrópukeppni á næsta keppnistímabili. Valur og FH eru í þriðja til fjórða sæti með 28 stig hvort lið og Fram þar fyrir neðan með sín 26 stig.  

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira