Sport

Rifust harka­lega eftir á­rekstur í fimm þúsund metra hlaupi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
George Mills og Hugo Hay rífast eftir keppni í fyrri undanriðlinum í fimm þúsund metra hlaupi á Ólympíuleikunum.
George Mills og Hugo Hay rífast eftir keppni í fyrri undanriðlinum í fimm þúsund metra hlaupi á Ólympíuleikunum. getty/Martin Rickett

Tveimur hlaupurum lenti saman eftir að þeir komu í mark í undanrásum í fimm þúsund metra hlaups karla á Ólympíuleikunum í París.

George Mills frá Bretlandi og Frakkinn Hugo Hay voru meðal hlaupara sem lentu í árekstri á lokahring fimm þúsund metra hlaupsins. Mills og fleiri féllu um koll en Hay stóð í lappirnar.

Eftir að þeir komu í mark hnakkrifust þeir. Mills vildi meina að Hay hefði orsakað áreksturinn og eftir að hafa skoðað atvikið á myndbandi voru dómararnir sammála honum. Mills komst því í úrslit fimm þúsund metra hlaupsins, líkt og Hay.

„Mér fannst þetta vera augljóst. Það var stigið á mig þegar ég var að fara að koma í mark. Franski gaurinn tók mig niður,“ sagði Mills sem vildi ekki endurtaka það sem hann sagði við Hay. Það væri sennilega ekki við hæfi.

Þess má geta að Mills er sonur Dannys Mills, fyrrverandi leikmanns enska landsliðsins í fótbolta. Mills varð í 2. sæti í fimm þúsund metra hlaupi á EM í frjálsum íþróttum í júní.

Mills hljóp á fjórtán mínútum og 37,08 sekúndum í undanrásunum. Norðmaðurinn og Evrópumeistarinn í greininni, Jakob Ingebrigtsen, var með besta tímann; 13:51,59.

Úrslitin í fimm þúsund metra hlaupinu fara fram á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×