Upp­gjörið: Fram - Valur 25-29 | Valur vann stórveldaslag

Dagur Lárusson skrifar
Valur sýndi yfirburði sína í seinni hálfleik.
Valur sýndi yfirburði sína í seinni hálfleik. vísir / hulda margrét

Valur hafði betur gegn Fram, 29-25, þegar liðin mættust í fjórðu umferð Olís deildar kvenna í kvöld.

Fram skoraði fyrstu tvö mörk leiksins en eftir það fór Valsliðið í gang þetta var í eina skiptið í leiknum þar sem Fram var með forystuna.

Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn fór forysta Vals að stækka og þegar var komið að hálfleiknum var staðan 11-15 en Thea Imani skoraði síðasta mark hálfleiksins eftir mikinn darraðadans.

Valsliðið kom enn sterkara til leiks í seinni hálfleikinn og á fyrstu tíu mínútunum sá Fram ekki til sólar. Það var þá sem Valsliðið komst í átta marka forystu og þurfti Fram að taka leikhlé til þess að fara yfir stöðuna.

Á lokakaflanum náði Fram að rétta aðeins úr kútnum og minnka forystu Vals niður í fjögur mörk, lokatölur 25-29.

Eftir leikinn er Valur með átta stig í efsta sætinu á meðan Fram er í öðru sætinu með sex stig.

Atvik leiksins

Ég myndi segja að atvik leiksins hafi verið fyrstu mínúturnar í seinni hálfleiknum þar sem Valsliðið sýndi yfirburði sína svo vel og í raun gerði út um leikinn.

Stjörnurnar og skúrkarnir

Þórey Anna og Elín Rósa drógu vagninn fyrir Valsliðið og skoruðu báðar sex mörk en þær Thea, Lovísa og Hildigunnur áttu allar einnig frábæran leik.

Dómarar

Fór mjög lítið fyrir þeim og það er alltaf gott og því fá þeir góða einkunn.

Stemning og umgjörð

Það var virkilega góð stemning í stúkunni og var ljóst að um toppslag væri að ræða.

Rakel Dögg Bragadóttir: Varnarleikurinn var ekki góður

„Ég er virkilega svekkt með tapið og þá aðallega vegna þess að mér fannst við ekki sýna nægilega vel það sem í okkur býr,“ byrjaði Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Fram, að segja eftir leik.

„Við erum auðvitað að spila gegn gríðarlega öflugu liði en mér fannst við samt eiga mikið inni og það er það sem situr eftir í mér eftir þennan leik,“ hélt Rakel áfram að segja.

„Við sýndum samt sem áður góðar rispur og spilamennskan var mjög jákvæð á köflum.“

Rakel talaði um varnarleikinn og segir að þau þurfi að skoða hann vandlega.

„Við spiluðum mjög vel á köflum en varnarleikinn var ekki góður og við þurfum að skoða hann vandlega. Við erum að fá á okkur of mikið af mörkum og það er of langt á milli leikmanna í vörninni. Þær opna okkur alltof oft upp og við viljum gera betur þar,“ endaði Rakel Dögg á að segja.

Hildigunnur Einarsóttir: Ógeðslega góður leikur hjá okkur

„Þetta var ógeðslega góður leikur hjá okkur,“ byrjaði Hildigunnur Einarsdóttir, leikmaður Vals, að segja eftir sigur Vals gegn Fram í kvöld.

„Við vissu að við þyrfum svona leik til þess að sigra þetta Fram lið. Við vorum búin að undirbúa okkur mjög vel fyrir þennan leik og þá aðallega kannski andlega hlutann og fengum mjög góðan innblástur frá Degi sem var aðstoðarþjálfarinn í fyrra,“ hélt Hildigunnur áfram að segja.

„Þetta var góður leikur hjá öllum frá A-Ö en ég hefði eiginlega viljað vinna stærra en við gerðum því mér fannst við vera með stjórn á leiknum allan tímann.“

Hildigunnur talaði aðeins meira um andlega undirbúninginn.

„Það er alltaf erfitt að mæta hér og leikirnir á milli þessara liða eru alltaf ákveðin rimma og við vitum það alveg að ef við gefum tommu eftir að þá kemur Fram og refsar eins og kannski sést þar sem við vorum komnar með átta marka forystu en endum með fjögurra marka sigur,“ endaði Hildigunnur á að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira