Upp­gjörið: Stjarnan - Fram 25-31 | Fram bikar­meistari

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bikarmeistarar Fram á samt stuðningsmönnum.
Bikarmeistarar Fram á samt stuðningsmönnum. Vísir/Anton Brink

Fram er bikarmeistari karla í handbolta árið 2025. Þeir lögðu Stjörnuna að velli 31-25 í spennandi úrslitaleik að Ásvöllum. Þetta er annar bikartitill Framara og sá fyrsti síðan árið 2000.

Leikurinn byrjaði fjörlega og gekk báðum liðum vel að skora í upphafi. Markmennirnir Adam Thorstensen og Arnór Máni Daðason voru þó fljótir að vakna og vörðu báðir vel í fyrri hálfleiknum.

Sveinn Andri Sveinsson í harðri baráttu við þá Tryggva Garðar Jónsson og Dag Fannar Möller í vörn Fram.Vísir/Anton Brink

Eftir rúmlega fimm mínútna leik fékk Magnús Öder Einarsson, fyrirliði Fram, rautt spjald fyrir brot en Framarar létu það lítið á sig fá og í stöðunni 8-7 fyrir Stjörnuna skoruðu Framarar fimm mörk í röð og komust í 12-8.

Á síðustu sekúndum hálfleiksins fengu Framarar dauðafæri til að fara með fjögurra marka forystu í hálfleikinn. Adam Thorstensen varði hins vegar frá Tryggva Garðari Jónssyni í hraðaupphlaupi, Stjörnumenn geystust upp völlinn og minnkuðu muninn í 14-12 rétt áður en hálfleiksflautan gall.

Ívar Logi Styrmisson var markahæstur Framara í dag.Vísir/Anton Brink

Í upphafi síðari hálfleiks héldu Framarar frumkvæðinu en Stjarnan náði að jafna í stöðunni 18-18 og að miklu leyti fyrir margar góðar vörslur Adams í markinu. Framarar áttu þó alltaf einhverja ása uppi í erminni þegar á þurfti að halda.

Þeir skoruðu sex af næstu sjö mörkum á meðan Stjörnumenn fóru stundum illa að ráði sínu en þeir misnotuðu meðal annars þrjú víti í leiknum. Garðbæingum tókst engu að síður að minnka muninn í 25-24 en lengra komust þeir ekki og Framarar juku forskotið á ný.

Leikmenn Fram gátu svo sannarlega fagnað í leikslok.Vísir/Anton Brink

Á síðustu mínútum tóku Stjörnumenn áhættu sem gekk ekki upp og Framarar röðuðu inn mörkum. Þegar lokaflautan gall var staðan 31-25, staða sem gefur ekki rétta mynd af leiknum en þýðir engu að síður að Framarar eru bikarmeistarar og það verðskuldað.

Atvik leiksins

Í stöðunni 26-24 fyrir Fram tóku þjálfarar Stjörnunnar leikhlé. Eftir það tapaði liðið boltanum í tvígang með stuttu millibili og Fram gerði út um leikinn. Stjörnumenn voru ekki nægilega klókir á lykilaugnablikum undir lokin og það nýttu Framarar sér vel.

Stjörnur og skúrkar

Framarar fengu framlag frá mörgum og komust ellefu leikmenn liðsins á blað. Reynir Þór Stefánsson og Rúnar Kárason leystu þá oft úr snörunni í erfiðri stöðu og Ívar Logi Styrmisson var svo sannarlega betri en enginn, nýtti færin vel og endaði markahæstur á vellinum. 

Reynir Þór Stefánsson er lykilmaður í liði Framara.Vísir/Anton Brink

Ívar Logi fær reyndar smá skúrkastimpil á sig líka fyrir að skjóta í höfuðið á Sigurði Dan Óskarssyni úr víti á lokakafla leiksins.

Hjá Stjörnunni var Adam Thorstensen góður og Sigurður Dan átti sömuleiðis góða innkomu í markið. Jóel Bernburg var góður á línunni, sérstaklega í síðari hálfleik.

Framarar fögnuðu vel í leikslok.Vísir/Anton Brink

Dómararnir

Þeir Svavar Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson þurftu að taka stóra ákvörðun snemma leiks en rauða spjaldið á Magnús Öder var hárréttur dómur. Það er alltaf mikill hasar í svona úrslitaleikjum en þeir Svavar og Sigurður dæmdu þennan leik vel. 8/10 í einkunn til þeirra félaga.

Stemmning og umgjörð

Það var uppselt á Ásvelli í dag og stemmningin mjög góð hjá stuðningsmönnum beggja liða. Umgjörðin hjá HSÍ var góð og sannkölluð bikarveisla sem áhorfendur fengu.

Bikarinn á loftVísir/Anton Brink

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira