Upp­gjörið: Stjarnan - Njarð­vík 103-110 | Tókst ekki að stela öðru sætinu

Árni Jóhannsson skrifar
Stjarnan - Álftanes Bónus Deild Karla Vetur 2025
Stjarnan - Álftanes Bónus Deild Karla Vetur 2025

Njarðvík vann 103-108 á útivelli gegn Stjörnunni í lokaumferðinni. Njarðvík hefði þurft ellefu stiga sigur til að stela öðru sætinu af Stjörnunni, en endar í þriðja sæti og Stjarnan í öðru.

Njarðvíkingar áttu fyrsta höggið á andsætðinginn sinn í kvöld og leiddu 2-6 eftir fyrstu augnablikin og aftur 6-11 þegar um fjórar mínútur voru liðnar af leik kvöldsins. Stjörnumenn náðu þá að herða varnarleik sinn svo um munaði og tóku öll völd á þessum leik. Fyrir utan dómaravöldin því þeir áttu eftir að flauta ansi mikið. Bæði lið komust í skotrétt mjög snemma og fór leikurinn fram mikið á vítalínunni. Stjörnumenn nýttu vítin sín og þristana sína og fóru með 10 stiga forskot inn í fyrstu leikhluta skiptin 32-22. Hilmar Smári Henningsson átti stórleik og var kominn með 14 stig í fyrsta leikhluta.

Stjörnumenn héldu áfram að þjarma að Njarðvíkingum með varnarleik sínum og náðu að auka forskot sitt upp í 15 stig, 37-22, áður en Njarðvíkingar rönkuðu við sér og fóru á 12-0 sprett til að minnka mininn niður í þrjú stig í 37-34. Liðin fóru þá að skiptast á körfum og varnarleikur beggja var harður. Aftur var mikið flautað og þess vegna var mikið karpað og tuðað. Gerði það að verkum að lítið flæði komst í leikinn. Stjörnumenn voru með kaldari haus og sprettu fram úr og leiddu með níu stigum í hálfleik og höfðu verið heilt yfir betra liðið í fyrri hálfleik. Staðan 54-45 í hálfleik.

Njarðvíkingar fóru vel yfir málin í hálfleik og mættu fílefldir til leiks í þeim seinni. Náðu að naga niður níu stiga forskotið sem Stjarnan hafði og jöfnuðu metin í 58-58 og komust einu stigi yfir af vítalínunni að auki. Þá fóru liðin aftur að skiptast á að skora og var leikurinn í jafnvægi. Njarðvíkingar voru vel meðvitaðir um það að 11 stiga sigur myndi skila þeim öðru sætinu í deildinni og hófu vegferð sína í þá átt. Náðu í fimm stig forskot í þriðja leikhluta en Stjarnan náði að vinna það upp aftur og jafna í stöðuna 78-78 og þannig stóð eftir þriðja leikhluta.

Njarðvíkingar náðu að spretta af stað í fjórða leikhluta líka og komust níu stigum yfir, 80-89, þegar um fjórar mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta. Þeir fundu líklega lyktina af öðru sætinu og héldu áfram að þjarma að heimamönnum sem reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn en varnarleikur Njarðvíkur hélt. Um sinn. 

Njarðvík komst í 11 stiga mun 88-99 en Stjörnumenn voru fljótir að minnka muninn. Gestirnir komust í 11 stiga mun nokkrum sinnum á loka andartökum leiksins en Stjarnan náði alltaf að minnka muninn um hæl og neituðu að hleypa Njarðvíkingum of langt frá sér. Leikurinn varð eins og spennuslagur, fór mikið fram á vítalínunni og dómarar leiksins fóru í taugarnar á öllum sem að komu. Bjarni Guðmann var eiginlega hetja Stjörnumanna en hann var í því að setja stór skot á lokamínútunni. Leikurinn endaði 103-110 fyrir Njarðvík sem endar í þriðja sæti en Stjarnan heldur öðru sætinu en líklega með óbragð í munni.

Atvik leiksins

Það voru mörg tilþrif sem litu dagsins ljós í þessum leik og þegar hann fékk að fljóta þá var hann afbragðs skemmtun. Það fékk því miður ekki að gerast nógu oft. Atvik leiksins er þristur frá Ægi í sem kom stöðunni úr 94-105 í 97-105 þegar 41 sekúnda var eftir af leiknum. Þá náðu Stjörnumenn að stífa vængi Njarðvíkinga og halda muninum góðum þrátt fyrir tap.

Stjörnur og skúrkar

Bæði þessi lið eru stútfull af hæfilekum og það sýndi sig í kvöld. Sóknarleikurinn var afbragð á köflum og varnarleikurinn líka. Hilmar Smári Henningsson skoraði 26 stig fyrir heimamenn og Dwayne Lautier-Ogunleye skoraði 27 stig en þessir menn börðust hatramlega allan leikinn. Engir skúrkar að þessu sinni.

Umgjörð og stemmning

Hefði mátt vera betur mætt í kvöld. Möguleiki á titli og úrslitakeppnin að byrja. Það var ekki fyrr en langt var liðið á leikinn sem stuðningsmannasveitir liðanna tóku við sér.

Dómararnir

Þeir fá ekki háa einkunn. Leikurinn flaut lítið og tók ógurlega langan tíma. Það hallaði á hvorugt lið en skemmtanagildið fékk að finna fyrir því. Vísa í orð Baldurs Þórs sem fór vel yfir þetta í viðtali sínu að ofan.

Viðtöl:

Rúnar Ingi: 15 sigrar, það er hrikalega öflugt í mjög sterkri deild.

Njarðvíkingar unnu Stjörnuna með sjö stigum sem dugði ekki til að komast í annað sæti deildarinnar en þjálfari Njarðvíkinga, Rúnar Ingi Erlingsson, var spurður að því hvernig hans menn náðu í sigurinn.

„Ég myndi segja andlegur styrkur í seinni hálfleik. Það kom kafli í fyrri hálfleik þar sem við gerðum hrikalega vel eftir að hafa lent 15 undir. Vorum agaðir þá á báðum endum vallarins og skoruðum 12 stig í röð. Við vorum þá með hausinn í því að spila körfu. Ég bað mína menn um að einbeita sér að því í hálfleik. Við vorum komnir til að spila körfuboltaleik og að við skildum einbeita okkur að því og mér fannst við gera það nánast allar 20 mínúturnar í seinni hálfleik.“

Það var mikið dæmt eins og áður hefur komið fram. Hafði það áhrif?

„Já að sjálfsögðu. Dómararnir voru að reyna að finna línu en bæði lið voru að spila ákafa vörn og mikið um snertingu. Þetta var örugglega erfiður leikur að dæma líka. Þetta var dálítið mikið í þriðja en við hödlum bara áfram. Við þurfum að stjórna því hvernig við erum þegar mótlætið kemur. Hvort sem það eru dómarar eða áhlaup hinna liðanna og halda áfram að gera það sem við viljum gera. Ég hef trú á því að þegar við gerum það í 40 mínútur þá erum við að vinna flesta körfubolta leiki.“

Njarðvíkingar lenda í þriðja sæti deildarinnar en hvernig metur þjálfarinn tímabilið?

„15 sigrar, það er hrikalega öflugt í mjög sterkri deild. Við vorum án Dwayne stóran hluta tímabilsins og við höfum núna náð í tvo stóra sigra gegn Stólunum og Stjörnunni. Það er „statement“ og nú þurfum við bara að leggja línurnar og undirbúa okkur undir Álftanes.“

Hvernig líst Rúnari á liðið fyrir úrslitakeppnina. Liðinu var spáð níunda sæti en þeim spám var blásið út í hafsauga.

„Þetta er sama lið og hóf mótið og menn spáðu níunda sæti. Við erum löngu búnir að sanna það hvað þetta lið getur gert. Ég er bara ánægður að sækja þennan sigur. Alveg sama hvað. Hver leikur hefur sína sögu. Tindastóll og Stjarnan voru öðruvísi leikir en t.d. leikir gegn Álftanes. Við unnum samt Álftanes tvisvar í vetur og ég held að við höfum viku núna til að undirbúa okkur og við ætlum að nýta það vel.“

Dwayne: Við þurftum bara að spila saman og vera harðir í horn að taka

Dwayne Lautier-Ogunleye var stigahæstur Njarðvíkinga í dag og dró sína menn áfram á löngum stundum til sigurs þegar hlutirnir gengu ekki sem skildi. Hann skoraði 27 stig og var spurður að því hvað hafi skilað sigrinum í kvöld.

„Við þurftum bara að spila saman og vera harðir í horn að taka. Þetta er fjandsamlegt umhverfi hérna í Garðabænum en þeir pressa mikið og eru árásargjarnir. Við þurftum bara að framkvæma hlutina vel. Við fengum síðan framlag úr mörgum áttum í kvöld.“

Njarðvíkingar voru níu stigum undir í hálfleik en hvað var rætt til að snúa þessu við?

„Við þurftum bara að vera rólegir. Við vorum að flýta okkur um of í sókninni þar sem þeir voru að berja mikið á okkur. Við vorum að missa tökin á tilfinningum okkar og þurftum að róa okkur og spila okkar leik. Við náðum því í seinni hálfleik.“

Dwayne og Hilmar Smári Henningsson háðu athyglisverða baráttu í kvöld. Hilmar skoraði 26 stig og voru þeir utan í hvor öðrum nánast allan leikinn. Hvernig leit það út frá sjónarhóli Dwane?

„Úrslitakeppniskörfuboltinn er byrjaður bara. Ég bjóst við baráttunni á báðum endum vallarins og er bara hluti af leiknum. Bæði lið vildu annað sætið, þeir náðu því en það er allt undir núna.“

Njarðvíkingum var spáð níunda sæti en hvernig líður Dwayne með liðið á þessum tímapunkti hafandi náð þriðja sætinu.

„Við settum okkur markmið að vera í efstu fjórum og náðum því. Það er góð tilfinning að sanna fyrir fólki að það hafði rangt fyrir sér en það skiptir engu máli núna. Núna er það bara úrslitakeppnin og allt er undir. Við þurfum að vinna eina seríu í einu og besta liðið kemst alltaf áfram.“

Á þeim tímapunkti sem viðtalið var tekið var ekki ljóst hvaða lið myndi mæta Njarðvík en Grindavík eða Álftanes voru líkleg. Dwayne hafði svar á reiðum höndum varðandi næsta andstæðing liðsins..

„Það skiptir engu máli hver það verður. Við ætlum að vinna.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira