Ef einhver hélt að botninum hafi verið náð strax í fyrsta leik á HM í Katar þá kom annað í ljós í kvöld. Eftir að strákarnir sýndu góðan stíganda í leikjum sínum eftir tapið pínlega gegn Svíum varð algjört hrun í þeirra leik gegn Tékkum í kvöld. Lokatölur, 36-25.
Tékkland gaf tóninn strax í upphafi og leiddi frá fyrstu mínútu. Tékkarnir, sem höfðu tapað öllum leikjum sínum í keppninni til þessa, skoruðu 21 mark í fyrri hálfleik gegn arfaslöku íslensku liði.
Þeir gerðu nóg til að landa sigrinum í síðari hálfleik og þrátt fyrir að strákarnir reyndu hvað sem þeir gátu til að koma sér aftur inn í leikinn þá voru þeir einfaldlega að spila of illa til þess.
Ég ætla ekki að detta í þann forapytt að saka leikmenn íslenska landsliðsins um andleysi eða uppgjöf. Það er ekki í þeirra eðli og var heldur ekki að sjá á þeim í kvöld. Þeir spiluðu einfaldlega illa og var þetta auðveldlega versti leikur íslensks handboltaliðs á stórmóti í langan, langan tíma.
Aron Pálmarsson fékk högg í andlitið á 24. mínútu og þar með höggið sem margir óttuðust að væri væntanlegt. Aron, sem kinnbeinsbrotnaði skömmu fyrir mót, kom ekki einu sinni á bekk íslenska liðsins í síðari hálfleik.
Það er ekki hægt að hrósa neinum fyrir góða frammistöðu í gær. Því miður. Lykilmenn klikkuðu alfarið og það er sárast. Þeir sem komu inn á höfðu ekki kraftinn til að vinna upp forskotið sem Tékkar unnu sér inn í fyrri hálfleik. Það var langur vegur frá því.
Sóknarleikur Íslands var mjög slakur í kvöld og tékkneska vörnin átti í engum vandræðum með hann. Að sama skapi léku þeir sér að því að skora hvert markið á fætur öðru og þá er ekki að spyrja að niðurstöðunni.
Ísland mætir Egyptalandi á laugardag sem eru með svo mikinn stuðning í Doha að þeir gætu allt eins verið á heimavelli. Ekkert annað en sigur dugir til að tryggja Íslandi sæti í 16-liða úrslitunum. Jafntefli eða tap þýðir að strákarnir þurfa að verja sínum síðustu dögum hér í Doha í hinum skelfilega Forsetabikar.
Fyrri hálfleikur var hreinasta, hreinasta hörmung. Ekkert gekk upp. Ekki nokkur skapaður hlutur. Á meðan gengu Tékkar á lagið og spiluðu íslenska liðið sundur og saman - ítrekað.
Aron, Alexander og Snorri Steinn neyddust til að taka þvinguð skot hvað eftir annað eftir þunglamalegar og hugmyndasnauðar sóknaraðgerðir og Petr Stochl fór í gang í marki Tékkanna. Hann verði hvert skotið á fætur öðru.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem sóknarleikur Íslands hefur lent í vandræðum í þessari keppni. Áður voru það skotin sem klikkuðu en strákarnir náðu þó að spila sig í færi. Nú var það ekki einu sinni uppi á teningnum. Þessi sóknarleikur líktist á engan hátt þeim sem strákarnir höfðu spilað til þessa á mótinu.
Sama má segja um varnarleikinn og markvörsluna. Hina margrómuðu íslensku geðveiki skorti frá fyrstu mínútu og skyttur Tékkana gengu ítrekað á lagið. Skipti engu þó svo að Aron Rafn hafi komið inn á fyrir Björgvin Pál eftir aðeins sex mínútna leik. Markvarslan var allt of lítil.
Það kom örstuttur kafli seint í fyrri hálfleiknum þar sem hlutirnir gengu þolanlega hjá strákunum. En hann var allt of stuttur og Tékkarnir rúlluðu yfir okkar menn með því að breyta stöðunni úr 15-9 í 21-11 á síðustu níu mínútum hálfleiksins.
Aron Pálmarsson fékk þungt högg í andlitið frá Ondrej Zdrahala eftir tæplega 24 mínútna leik. Aron var viðkvæmur eins og vitað var eftir að hann kinnbeinsbrotnaði eftir líkamsárás á milli jóla og nýárs. Hann kom ekki meira við sögu í fyrri hálfleik.
Eini maðurinn sem sýndi eitthvað lífsmark eftir að hann kom inn á var Stefán Rafn Sigurmannsson. Hann skoraði einu tvö mörk Íslands á síðustu níu mínútum hálfleiksins en allir aðrir voru langt, langt frá sínu besta.
Stochl var með 61 prósenta hlutfallsmarkvörslu í fyrri hálfleik og Filip Jicha skoraði átta mörk úr níu skotum. Íslensku markverðirnir vörðu sjö skot í fyrri hálfleik og skotnýting liðsins var aðeins 37 prósent. Aron Pálmarsson var með eitt mark úr sjö skotum.
Tékkland þurfti aðeins að halda haus í síðari hálfleik. Þeir voru tíu mörkum yfir og Aron Pálmarsson, besti maður Íslands, var hvergi sjáanlegur á bekk íslenska liðsins. Hann kom aldrei til baka eftir að leikmenn gengu inn í búningsklefa að loknum fyrri hálfleik.
Það var þó meiri ákefð í íslensku vörninni og Björgvin Páll varði nokkur skot í upphafi síðari hálfleiksins. En Tékkarnir náðu að hanga á boltanum og skiluðu inn sínum mörkum.
Í hvert sinn sem strákarnir sýndu einhverja tilburði þess að ætla að koma til baka áttu Tékkarnir svör. Það var sama hvaða spil Aron Kristjánsson lagði á borðið - ný vörn, nýir leikmenn, ný kerfi - ef eitthvað gekk upp þá svöruðu Tékkarnir jafn harðan.
Tíminn vann með Tékkunum og þeir héldu okkar mönnum í öruggri fjarlægð allan leikinn. Niðurstaðan sorglegt tap í leik sem strákarnir þurftu að vinna. Nú þurfa þeir að vinna Egyptaland á laugardag - að öðrum kosti fara þeir í Forsetabikarinn eftir helgi.
Umfjöllun: Ísland - Tékkland 25-36 | Hrun strákanna í Katar

Tengdar fréttir

Gæti endað illa að þurfa að mæta Egyptum í úrslitaleik
Gunnar Magnússon hefur kortlagt Tékkana fyrir leikinn mikilvæga á HM í kvöld.

Vissi ekki hversu mikil ábyrgð fylgdi markvarðarstöðunni
Björgvin Páll Gústavsson gerði sér enga grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem markverðir bera þegar hann valdi þá stöðu átta ára gamall.

Snorri Steinn: Helvíti lélegir þegar við slökum á
Snorri Steinn Guðjónsson átti frábæran leik gegn Frökkum en varar við að menn gefi eftir gegn Tékkum í kvöld.

Ásgeir Örn: Veit ekki hvernig gömlu mennirnir fara að þessu
Strákarnir stefna að því að kaffæra Tékkana strax í byrjun leiks.

Leikur Íslands og Tékklands gerður upp í HM-kvöldi
HM-kvöld verður á Stöð 2 Sport í kvöld. Þátturinn hefst venju samkvæmt klukkan 20.00.

Aron Kristjáns: Við vorum að spila betur saman
Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska landsliðsins, var eins og leikmennirnir ánægður með leikinn gegn Frökkum. Það er oft erfitt að sjá á þjálfaranum hvort hann er kátur eða glaður því hann heldur ætíð ró sinni hvernig sem á gengur.