Sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir, sem náði Ólympíulágmarkinu í 200 metra fjórsundi í gær, hélt uppteknum hætti í dag á Smáþjóðaleikunum sem standa nú yfir hér á landi.
Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á staðnum og tók myndirnar sem fylgja fréttinni.
Hrafnhildur vann til gullverðlauna í 200 metra bringusundi og náði um leið Ólympíulágmarki en hún synti á 2:25,39 mínútum. Hrafnhildur setti í leiðinni nýtt Íslandsmet (sem hún bætti um eina og hálfa sekúndu) og sló eigið mótsmet á Smáþjóðaleikunum en gamla metið var 2:31,28 mínútur.
Karen Mist Arngeirsdóttir náði í bronsverðlaun í sömu grein en hún kom í bakkann á tímanum 2:41,91 mínútu.
Eygló Ósk Gústafsdóttir gerði það einnig gott og vann til gullverðlauna í 100 metra baksundi. Eygló synti á 1:01,20 mínútum og sló eigið mótsmet um 1,69 sekúndu. Eygló vann einnig til gullverðlauna í 200 metra baksundi í gær.
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir kom önnur í mark í 100 metra baksundinu á tímanum 1:03,84 mínútum.
Í 100 metra baksundi í karlaflokki varð Kolbeinn Hrafnkelsson hlutskarpastur en hann kom í bakkann á 57,66 sekúndum, aðeins 0,01 sekúndu á undan Jean-Francois Schneiders frá Lúxemborg. Kristinn Þórarinsson hafnaði í 3. sæti á tímanum 58,21 sekúndu.
Jóhanna Gerða Gústafsdóttir vann sigur í 100 metra flugsundi á tímanum 1:00,91 mínútu og setti um leið nýtt mótsmet. Bryndís Rún Hansen hafnaði í 2. sæti á tímanum 1:01,10 mínútu.
Þá vann Ísland sigur í kvennaflokki í 4x200 metra skriðsundi á tímanum 8:20,96 mínútum. Sveitina skipuðu Bryndís Rún, Inga Elín Cryer, Ingibjörg Kristín og Jóhanna Gerða.
Ísland hafnaði í 2. sæti í karlaflokki í 4x200 metra skriðsundi.
Öll úrslit dagsins má finna með því að smella hér.
Hrafnhildur náði Ólympíulágmarkinu í 200 metra bringusundi | Myndir

Tengdar fréttir

Hrafnhildur náði Ólympíulágmarki
Náði frábærum árangri í 200 m fjórsundi á Smáþjóðaleikunum í gær.

Hrafnhildur bætti met Eyglóar | Níu íslensk verðlaun í sundinu
Hrafnhildur Lúthersdóttir og Eygló Ósk Gústafsdóttir unnu bæði gullverðlaun á fyrsta keppnisdegi í sundi á Smáþjóðaleikunum í Reykjavík. Anton Sveinn McKee bætti Íslandsmet.