Erlent

Rússar hefja loftárásir sínar í Sýrlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Rússneska þingið heimilaði í morgun forsetanum Vladimír Pútín að framkvæma loftárásir í Sýrlandi.
Rússneska þingið heimilaði í morgun forsetanum Vladimír Pútín að framkvæma loftárásir í Sýrlandi. Vísir/EPA
Rússneski flugherinn hefur hafið loftárásir sínar á Sýrland, nærri borginni Homs. CNN hefur þetta eftir bandarískum heimildarmanni sínum.

Enn á eftir að staðfesta fréttirnar, en fyrr í dag gaf rússneska þingið forsetanum Vladimír Pútín heimild til að framkvæma loftárásir í Sýrlandi.

Rússneski herinn hefur að undanförnu fjölgað í herliði sínu í Sýrlandi til að styðja við bakið á sveitum Bashar al-Assad Sýrlandsforseta.

Ekki er gert ráð fyrir að Rússar hefji landhernað í Sýrlandi.

AP greinir frá því að al-Assad fagni ákvörðun rússneska þingsins að aðstoða Sýrlandsstjórn og segir hann á Facebook-síðu sinni frá því að aðstoð Rússa komi í kjölfar beiðni frá Sýrlandsstjórn.

Uppfært 13:35:

Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur staðfest að flugherinn hafi gert loftárásir í héruðunum Hama, Homs og Latakia.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×