Þorvaldur skrifaði undir tveggja ára samning við Keflavík, en hann hefur þjálfað HK síðustu tvö ár. Þar áður þjálfaði hann Fram með fínum árangri í Pepsi-deildinni.
Þorvaldur er, eins og allir vita, þrautreyndur atvinnu- og landsliðsmaður, en hann hefur einnig þjálfað lið KA og Fjarðabyggðar.
Keflavík féll úr Pepsi-deildinni í sumar og spilar í 1. deild karla á næstu leiktíð.
„Við urðum svo skotnir í Þorvaldi í fyrsta viðtali og að ég held hann skotinn í okkur. Okkur fannst þetta smellpassa alveg rosalega flott. Við teljum hann vera hæfasta manninn í þessa stöðu,“ sagði Jón G. Benediktsson, nýr formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, við Vísi í morgun.
„Stefnan er sett rakleiðis upp um deild,“ bætti hann við. „Það var leikmannafundur áðan þegar við kynntum Þorvald og það voru allir mjög spenntir. Það er algjör einhugur um það, að fara beint upp um deild,“ sagði Jón.
