Enski boltinn

Gylfi lagði upp mark í endurkomusigri Swansea | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fernando Llorente tryggði Swansea City þrjú afar mikilvæg stig þegar liðið fékk Burnley í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur 3-2, Swansea í vil en þetta var fjórði sigur liðsins í síðustu sex leikjum.

Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp annað mark Swansea í leiknum. Þetta var hans tíunda stoðsending í vetur en enginn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni hefur gefið fleiri.

Jóhann Berg Guðmundsson lék ekki með Burnley vegna meiðsla.

Llorente kom Swansea yfir á 12. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf Leroys Fer í netið.

Átta mínútum síðar færði Athony Taylor, dómari leiksins, Burnley vítaspyrnu á silfurfati. André Gray fór á punktinn og skoraði.

Gray var svo aftur á ferðinni á 61. mínútu þegar hann skoraði eftir sendingu frá Sam Vokes.

Forystan entist aðeins í átta mínútur því á 69. mínútu átti Gylfi glæsilega hælsendingu á Martin Olsson sem skoraði. Þetta er annað markið sem Gylfi leggur upp fyrir Olsson á þessu ári.

Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skallaði Llorente boltann framhjá Paul Robinson í marki Burnley og tryggði Swansea sigurinn. Spánverjinn er nú kominn með 11 mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×