Enski boltinn

Áhugi Everton á Gylfa ekki minnkað þrátt fyrir kaupin á Klaassen

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Spilar Gylfi næsta vetur í bláu fyrir lið og land?
Spilar Gylfi næsta vetur í bláu fyrir lið og land? Vísir/Getty
Gylfi Sigurðsson er enn þá ofarlega á lista hjá Everton yfir leikmenn sem það vill kaupa þrátt fyrir að það sé að ganga frá 26 milljóna punda kaupum á Davy Klaassen, fyrirliða Ajax.

Þetta fullyrðir blaðamaðurinn Chris Wathan á Wales Online og vitnar í heimildamenn sína hjá Everton. Wathan fylgist grannt með málefnum Swansea og er vel tengdur inn í félagið.

Klaassen er miðjumaður eins og Gylfi en það þýðir ekki að Koeman sé búinn að fullmanna þær stöður samkvæmt frétt Wales Online. Koeman er sagður enn þá mjög áhugasamur um að fá Gylfa til Everton.

Everton hefur verið með veskið á lofti undanfarna daga en það er búið að ganga frá 30 milljóna punda kaupum á enska markverðinum Jordan Pickford frá Sunderland og kaupin á Klaassen eiga að klárast á næstu tveimur dögum.

Everton er vel stætt fjárhagslega eftir yfirtöku Farhad Moshiri á félaginu á síðasta ári og er fullyrt að það sé enn þá tilbúið að reiða fram að minnsta kosti 25 milljónir punda fyrir Gylfa.

Þá sömu upphæð bauð Everton í íslenska landsliðsmanninn á síðustu leiktíð en verðið á honum hefur bara farið upp á við síðustu mánuði. Everton þarf vafalítið að rjúfa 30 milljóna punda múrinn ætli það að kaupa Gylfa Þór Sigurðsson.

West Ham, Southampton og nú helst Leicester eru einnig sögð áhugasöm um að fá Gylfa til sín en Swansea hefur engan áhuga á að selja sinn besta mann.

Talið er að Gylfi muni ekki krefjast þess að fara nema lið sem spilar í Meistaradeildinni komi á eftir honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×