Enski boltinn

BBC: Swansea hafnaði tilboði frá Leicester og vill fá 50 milljónir punda fyrir Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson er mikið í fréttum enskra fjölmiðla þessa dagana sem eru allir að velta fyrir sér hvar íslenski landsliðsmaðurinn spili á næstu leiktíð.

Um helgina voru ensku miðlarnir á því að Gylfi væri á leiðinni til Everton fyrir rúmlega 30 milljónir punda en það er ljóst að Swansea vill fá meira fyrir sinn besta mann.

BBC segir frá því í dag að Swansea hafi hafnað 40 milljón punda tilboði frá Leicester City og að velska félagið vilji fá 50 milljónir punda fyrir leikmanninn sem hefur öðrum fremur séð til þess að liðið er enn í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi á eftir þrjú ár á samningi sínum við Swansea og hann sjálfur segist vera ánægður hjá félaginu. Gylfi er því ekki að pressa á sölu en það er aftur á móti mikill áhuga á honum hjá bæði Everton og Leicester.

Everton hefur verið öflugt á félagsskiptamarkaðnum í sumar og fengið menn eins og Wayne Rooney til félagsins en félagið er væntanlega að fara að selja markakónginn Romelu Lukaku til Manchester United fyrir 75 milljónir punda. Þar koma inn miklir peningar sem gæti farið í kaupin á Gylfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×