Innlent

Foreldrar mótmæla niðurskurði í grunnskólum Reykjavíkur

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag.
Foreldrar grunnskólabarna hittust á fundi í dag þar sem ályktun til borgarstjóra var samþykjkt. Fundurinn mótmælir harðlega niðurskurði í grunnskólum Reykjavíkur þriðja árið í röð og segir í ályktuninni að enn frekari aðgerðir muni skaða skólastarfið um ókomna framtíð með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir börnin okkar. „Við sættum okkur ekki við það," segir í ályktuninni.

Þá segir að fundurinn geri mjög alvarlegar athugasemdir við að á sama tíma og aukið foreldrasamstarf sé boðað í borginni sé kerfisbundið verið að leyna foreldra upplýsingum um hvaða leiðir skólastjórnendum er gert að fara í niðurskurðinum. „Foreldrar hafa fengið sig fullsadda af hástemmdum yfirlýsingum um samráð þegar ekki er um raunverulegt og faglegt samráð að ræða."

Að lokum krefjast foreldrarnir þess að að allar upplýsingar og tillögur um niðurskurð í grunnskólunum verði lagðar fram og kynntar á opnum fundi með foreldrum grunnskólabarna í Reykjavík eins fljótt og unnt er. Að fundinum stóðu SAMFOK - samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, Stjórnir foreldrafélaga í grunnskólum Reykjavíkur og Fulltrúar foreldra í skólaráðum í grunnskólum Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×