Íslenski boltinn

Vilja að öllum kappleikjum verði frestað um viku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik í Pepsi Max-deild karla í sumar.
Úr leik í Pepsi Max-deild karla í sumar. vísir/bára

Á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar og sóttvarnayfirvalda í dag beindi Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, því til íþróttahreyfingarinnar að öllum kappleikjum fullorðinna yrði frestað um viku. Er þar átt við kappleiki iðkenda sem eru fæddir árið 2000 eða fyrr.

„Við biðlum til íþróttahreyfingarinnar að fresta öllum íþróttaviðburðum um eina viku, eða til 10. ágúst,“ sagði Víðir.

Á fundinum var tilkynnt um hertari aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins. Þær taka gildi á hádegi á morgun. Fjöldatakmörk verða lækkuð úr 500 manns í 100 manns. Ljóst er að það mun hafa áhrif á áhorfendafjölda á leikjum þegar þeir mega aftur fara fram.

Þá tekur tveggja metra reglan aftur gildi og verður ekki lengur valkvæð. Þar sem ekki verður hægt að tryggja metra regluna verður grímuskylda.

Ljóst er að þetta hefur mikið áhrif á Íslandsmótið í fótbolta og Íslandsmótið í golfi sem átti að fara fram í Mosfellsbæ 6.-9. ágúst.

Sjö leikir eru á dagskrá sextán liða úrslita Mjólkurbikars karla í kvöld og einn annað kvöld. Engir leikir eru á dagskrá um verslunarmannahelgina en strax eftir þá áttu leikir að fara fram í öllum deildum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×