Erlent

Nauðsynlegt að koma Bush frá

Það er nauðsynlegt að koma George Bush, forseta Bandaríkjanna, frá við næstu kosningar þar sem hann er að leggja utanríkisstefnu Bandaríkjanna í rúst. Þetta er kjarni yfirlýsingar frá á þriðja tug fyrrverandi háttsettra diplómata og hershöfðingja.  Hópurinn hyggst birta opið bréf í vikunni þar sem kjósendur eru hvattir til að sjá til þess að Bush verði ekki endurkjörinn. Þeir sem rita undir bréfið taka þó ekki afstöðu með neinum hinna frambjóðendanna. Einkum líkar höfundum bréfsins illa hvernig Bush hefur leikið bandamenn Bandaríkjanna. Þeir segjast hafa unnið að því alla ævi að því að byggja brýr og bandalög til að tryggja þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Núna horfi þeir upp á það verk hrynja til grunna vegna þess hvernig núverandi stjórn hagar utanríkisstefnu sinni. Tuttugu fyrrverandi sendiherrar eru á meðal bréfritara sem og herhöfðingjar, þar á meðal William Crowe, aðmíráll og yfirmaður herráðsins á seinna kjörtímabili Ronalds Reagans. Flestir embættismannanna og hershöfðingjanna voru repúblíkanar þegar þeir skipuðu embætti, aðallega hjá Reagan og Bush eldri. Gagnrýnin snýst ekki síst um aðferðafræði og deilur hefðbundinna íhaldsmanna og haukanna, eða "neo-konservatívra" strauma innan flokksins. Talsmenn þess hóps segja bréfritara út takti við nútímann og að sú stefna sem þeir standi fyrir hafi ekki skilað árangri. Því hafi verið tímabært að breyta til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×