Sport

Gengur illa að skora á móti KR

Hinni 17 ára Margréti Láru Viðarsdóttur leikmanni ÍBV í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu gengur illa að finna netmöskvana hjá KR. Hún skoraði ekki í 1-1 jafntefli liðanna í fyrrakvöld var það fimmti deildar og bikarleikur hennar í röð gegn KR þar sem að hún er ekki á skotskónum. Margrét Lára skoraði í fyrsta leik sínum gegn KR, 4-2 sigri í  júní 2002 en hefur síðan ekki skorað hjá Vesturbæjarliðinu. Eyjaliðið hefur ennfremur leikið fjóra deildarleiki í röð gegn KR síðan þá án þess að vinna og markatalan í þeim er 4-14 KR í vil. KR-ingum gengur því mun betur en öðrum liðum Landsbankadeildar kvenna að dekka þessa stórefnilegu knattspyrnukonu. Margrét Lára hafði skorað 16 mörk í síðustu fimm deildarleikjum sínum gegn öðrum liðum en KR þegar hún mætti á KR-völlinn í fyrrakvöld, þar af sjö mörk í fyrstu tveimur leikjum Landsbankadeildarinnar í sumar. Margrét Lára hefur til þessa dags skorað 31 mark í 21 deildarleik gegn öðrum liðum en KR og tíu mörk í níu A-landsleikjum en aðeins eitt mark í fimm deildarleikjum gegn KR. Margrét Lára skoraði reyndar í leiknum í fyrrakvöld en markið var dæmt af. Sólveig Þórarinsdóttir sem er að spila sitt fyrsta tímabil sem miðvörður átti mjög góðan leik og var með Margréti Láru í strangri gæslu allan tímann. Næsti leikur ÍBV er gegn Stjörnunni út í Eyjum og þá verður gaman að sjá hvort Margrét Lára verði búin að finna skotskóna sína á nýjan leik. Margrét Lára gegn KR: Leikir 6 (1) Mörk 1 (0) Margrét Lára gegn öðrum liðum: Leikir 25 (4) Mörk 31 (0) Margrét Lára gegn öllum liðum: 31 leikur (5) 32 mörk (0) * Bikarleikir eru innan sviga



Fleiri fréttir

Sjá meira


×