Fótbolti

Matic: „Onana er einn versti mark­vörður í sögu United“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nemanja Matic er ekki mesti aðdáandi Andrés Onana.
Nemanja Matic er ekki mesti aðdáandi Andrés Onana. getty/Jean Catuffe

Ummæli Andrés Onana um að Manchester United væri mun betra lið en Lyon fóru illa í Nemanja Matic og hann sendi kamerúnska markverðinum tóninn.

Lyon tekur á móti United í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar annað kvöld. Onana var brattur í viðtali fyrir leikinn og sagði að United væri með mun sterkara lið en Lyon. 

Við það var Matic, sem lék með United á árunum 2017-22 og gekk í raðir Lyon í fyrra, ekki sáttur og svaraði Onana fullum hálsi.

„Ég ber virðingu fyrir öllum. En þegar þú ert einn versti markvörður í sögu Manchester United verðurðu að passa hvað þú segir,“ sagði Matic.

Onana dró í land í færslu á Twitter og sagðist ekki hafa ætlað að sýna Lyon vanvirðingu.

United keypti Onana frá Inter fyrir rúmar 47 milljónir punda sumarið 2023. Frammistaða hans með Rauðu djöflunum hefur verið misjöfn en hann varð bikarmeistari með þeim á síðasta tímabili.

Leikur Lyon og United hefst klukkan 19:00 annað kvöld og verður sýndur beint á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×