Erlent

Átaks þörf í læknisþjónustu barna

"Nær tíu milljón börn undir fimm ára aldri deyja af völdum sjúkdóma sem hægt er að lækna, svo sem niðurgangs, mislinga og öndunarfærasjúkdóma," sagði Carol Bellamy, framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, við upphaf ráðstefnu í Pakistan þar sem markmiðið er að hvetja fólk til að starfa sem sjálfboðaliðar hjá hjálparstofnunum. Nær tvöfalt fleiri írösk börn þjást af vannæringu í Írak eftir innrás en fyrir hana. Fjögur af hverjum fimm börnum þjást af viðvarandi niðurgangi og prótínskorti. Bellamy lagði mikla áherslu á að byggja upp heilbrigðisþjónustu fyrir börn. Í ræðu Bellamy kom fram að meira en 170 milljónir barna eru vannærð og að 120 milljónir njóta engrar skólagöngu, stúlkur eru stærstur hluti þeirra síðarnefndu. Seinna vandamálið á sérstaklega við í Pakistan þar sem ráðstefnan er haldin. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna áætlar að þrjú af hverjum tíu börnum á aldrinum fimm til níu ára stígi aldrei inn fyrir dyrnar á skólastofu og mikið brottfall er meðal þeirra sem eitthvað nám stunda. Einungis fimmtungur barna er enn við nám í fimmta bekk.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×