Erlent

Heimurinn hættulegri en áður

Heimurinn er hættulegri en áður eftir Íraksstríðið, að mati Jacques Chiracs, forseta Frakklands. Hann segir stuðning Breta við stríðið engu hafa skilað. Chirac er væntanlegur í opinbera heimsókn til Bretlands á morgun, og sagði í viðtali við BBC meðal annars, að hann teldi engar líkur á að Bretar gætu miðlað málum á milli Frakka og Bandaríkjamanna. Raunar teldi hann að eins og málum væri komið vestra væri að líkindum enginn fær um að miðla málum. Chirac hefur ítrekað rætt stríðið í Írak við fjölmiðla í aðdraganda heimsóknarinnar, og meðal annars lýst þeirri skoðun sinni, að það hafi að vissu marki verið gott að bola Saddam Hússein frá. Það hafi hins vegar leitt til þess, að íslamskir öfgamenn hafi tvíeflst víða um veröld og hryðjuverkahættan hafi stóraukist. Því hafi stríðið leitt til meiri hættu í heiminum, en ekki dregið úr henni. Frakklandsforseti spyr líka hvað Tony Blair og Bretar hafi grætt á stuðningi sínum við málstað Bandaríkjamanna í Írak. Chirac kveðst hafa lagt að Blair að reyna að þrýsta á George Bush, Bandaríkjaforseta, til að beina athyglinni að Miðausturlöndum og friðarferlinu þar. Bandaríkjamenn hafi hins vegar ekki orðið við þeirri bón, og svo virðist sem þeir telji ekki ástæðu til að gjalda líku líkt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×