Erlent

Írakar drógu sér 1.400 milljarða

Stjórn Saddams Hussein dró sér andvirði um 1.400 milljarða króna úr áætlun Sameinuðu þjóðanna sem átti að gera Írökum kleift að selja olíu til að fjármagna matvæla- og lyfjakaup meðan landið sætti viðskiptabanni af hálfu Sameinuðu þjóðanna. Þetta kemur fram í gögnum sem tekin voru saman fyrir bandaríska þingnefnd sem rannsakar spillingu í kringum olíusöluna. "Það er mikilvægt fyrir okkur að komast að því hvort hagnaður af spillingunni hafi verið nýttur til hryðjuverkastarfsemi," sagði Henry Hyde, formaður þingnefndarinnar. Féð notaði Saddam meðal annars til að greiða bætur að andvirði 1,7 milljóna króna til fjölskyldna Palestínumanna sem gerðu sjálfsmorðsárásir á Ísraela. Þær greiðslur fóru í gegnum bankareikninga í Jórdaníu sem erlend fyrirtæki og einstaklingar greiddu mútur inn á til að eiga ólögleg viðskipti við Íraka. Þingnefndin fjallaði í gær um ásakanir þess efnis að franskur banki hefði hjálpað Íraksstjórn að draga sér fé með því að fylgjast ekki nægilega vel með því að greiðslurnar væru fyrir vörur sem hefðu verið afhentar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×