Erlent

Hóta að sniðganga kosningarnar

Stjórnmálamenn og aðrir áhrifamenn úr röðum súnnímúslima hótuðu því í gær að sniðganga kosningarnar sem fara eiga fram í janúar og skoruðu á aðra að gera það sama til að mótmæla árásum Bandaríkjahers. "Margvísleg hætta steðjar að sjálfstæði og fullveldi landsins," sagði í yfirlýsingu súnnímúslimanna. "Árásir á borgirnar Najaf, Karbala, Bagdad og hin grimmdarlega árás á Falluja eru hindranir í vegi skipulegra kosninga sem fara fram við hernámsaðstæður," bættu þeir við. Bardagar héldu áfram í Falluja þar sem Bandaríkjaher reynir að uppræta síðustu vígamennina þar. Í gær þurftu þeir einnig að berjast við vígamenn sem reyndu að lauma sér aftur inn í borgina. Níu Írakar féllu í bardögum vígamanna og Bandaríkjahers í Ramadi. Rólegra var sagt um að vera í Mosul en áður eftir að 1.200 bandarískir hermenn voru sendir þangað til að berjast við vígamenn. Fjórtán létu lífið í sprengjuárás og bardögum í Baiji. Flestir þeirra sem létust voru konur og börn. Um þrjú þúsund manns fóru í friðsamlega kröfugöngu í Bagdad til að krefjast lausnar sjö fylgismanna sjíaklerksins Mahmoud al-Hassani sem handteknir voru í síðustu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×