Erlent

Vilja ekki íslamskan helgidag

Hugmynd eins þingmanna Græningja um að lögfesta íslamskan helgidag sem þjóðarfrídag hefur mætt harðri gagnrýni í Þýskalandi. Jürgen Trittin, umhverfisráðherra flokksins, sem lýsti sig opinn fyrir umræðu um hugmyndinni, fékk að kenna á því og söluhæsta dagblað Þýskalands, Bild, sagði hann hafa tapað glórunni. Þýski þingmaðurinn Hans-Christian Ströble setti hugmyndina fram fyrstur þingmanna og stakk upp á því að tekinn yrði upp íslamskur helgidagur, til dæmis við lok Ramadan, í stað kristilegs helgidags. Síðar sagði hann upptöku íslamsks helgidags ekki þurfa að koma í stað kristilegs helgidags. Stjórnmálamenn úr öllum flokkum hafa lýst sig andvíga hugmyndinni. Marieluise Beck, fulltrúi Græningja í þingnefnd um aðlögun innflytjenda, vísaði henni á bug á þeirri forsendu að hvergi í Þýskalandi væru múslimar í meirihluta. Otto Schily innanríkisráðherra setti sig upp á móti henni og sagði nóg af hátíðisdögum fyrir. "Með fullri virðingu og umburðarlyndi, Þýskaland er land með vestrænar og kristnar rætur," sagði Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×